154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

mótun heildstæðrar stefnu um áfengis- og vímuefnavarnir.

30. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Sigmar Guðmundsson) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég vildi kannski halda til haga hér er að það sem vakir fyrir okkur flutningsmönnum er einmitt að bregðast við þessum vímuefnavanda sem við stöndum frammi fyrir. Ég hef ákveðnar efasemdir um að verðstýringar eða mjög miklar takmarkanir á aðgengi hafi bein áhrif á þá sem eru veikir af þessum sjúkdómi, það er kannski pínulítið það sem ég er að reyna að koma orðum að. Það getur vel verið að verðstýring geri það að verkum að við seljum færri lítra af áfengi í landinu. Ég held að það hafi ekki mikil áhrif á fólkið sem er með sjúkdóminn og er veikt. Við þekkjum öll gamla brandarann sem er mikið sannleikskorn í, útigangsmanninn sem sagði: Það eru helvítis vandræði með áfengið, það er orðið svo dýrt að ég hef ekki lengur efni á að kaupa mér skó. Þeir sem eru veikir forgangsraða þannig að þeir svala fíkninni. Mér hefur stundum fundist í gegnum tíðina að þegar við erum að ræða um vímuefnavandann og áfengisvandann þá séum við svolítið að friðþægja okkur með því að hlaupa í svona stýritæki eins og verðstýringu eða takmarkanir á aðgengi, vegna þess að ég held raunverulega að það hafi ekki áhrif á þann hóp sem á að vera undir í þeirri stefnu sem hér er. Sem einhvers konar aðgerð til að minnka neyslu almennt, draga úr unglingadrykkju eða eitthvað þess háttar — við getum alltaf rætt það í því samhengi og það ætla ég ekki að útiloka en mér finnst brýnt að halda þessu til haga, að við erum að ræða um sjúkdóm, þetta er sjúkdómur sem er svo skrýtinn að fólk leggur alveg óheyrilega erfiðleika á sig til þess að viðhalda fíkninni, og svona opinberar stýringar af ýmsu tagi, boð og bönn, hafa ekkert endilega sýnt sig að gera mikið fyrir þennan hóp sem er veikur. Hvort það hafi síðan áhrif á hina sem drekka sér að skaðlausu skal ég ekki segja en mér finnst sjálfsagt að taka þetta allt til skoðunar í þessari vinnu.