135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

öryrkjar í háskólanámi.

400. mál
[15:39]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka menntamálaráðherra greinargóð svör. Það er gott að fá að vita hvernig skráningu öryrkja við Háskóla Íslands er háttað, þ.e. að hún sé ekki til staðar. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að vita það upp á alla frekari umræðu. En það er jákvætt að sjá að með þeim leiðum sem við getum mælt virðist vera ákveðin fjölgun fatlaðra nemenda og öryrkja í Háskóla Íslands.

Í ljósi þess hversu fáir einstaklingar njóta sérúrræða mundi ég mjög gjarnan vilja sjá unnið enn frekar að því innan menntamálaráðuneytisins að búa til fleiri leiðir eins og námsbrautina í Kennaraháskólanum sem mundi þá gera það að verkum að öryrkjum í háskólanámi mundi fjölga. Eins og ég sagði í upphafi vona ég svo sannarlega að þessi umræða verði til að vekja athygli á málinu og fleyta því áfram þannig að útkoman verði sú að fleiri öryrkjar stundi nám.