140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum.

[15:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa lagt frumvarpið fram. Ég heyri að það er um að ræða töluverðar áherslubreytingar frá fyrri tíma og við munum að sjálfsögðu fara mjög vel yfir þetta, m.a. við sem erum í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég hvet hæstv. ráðherra, þó að það verði ekki í næstu viku, til að leggja fram frumvarpið um Ríkisútvarpið því að ég tel mjög mikilvægt að þessi frumvörp verði rædd samhliða í þinginu og þá afgreidd samhliða frá allsherjar- og menntamálanefnd.

Varðandi eignarhaldið tek ég undir það með hæstv. ráðherra að ég held að það sé afar heppilegt að vita um eignarhald á fjölmiðlum, m.a. í ljósi sögunnar, og það hefði átt að koma fram miklu fyrr. Ég held að það sé hluti af þeirri dýrmætu reynslu sem við höfum fengið af hruninu að það sé mikilvægt að eignarhald á fjölmiðlum sé skýrt og öllum ljóst.

Hins vegar lá ekki í svari ráðherra hvort hún teldi heppilegt að ráðherrar ættu í (Forseti hringir.) fjölmiðlum, m.a. ráðherra fjölmiðlamála, ekki síst í ljósi þeirra orða sem koma fram í rannsóknarskýrslu Alþingis um sjálfstæða fjölmiðla og hlutlaust mat þeirra á fréttum.