140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

viðbrögð eftirlitsstofnana og ráðuneytis við dómi Hæstaréttar um gjaldeyrislán.

[15:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða hér mál sem við þekkjum vel og snýr að dómi Hæstaréttar í svokölluðu gengislánamáli. Hann féll 15. febrúar og ég fór fljótlega eftir það fram á að við ræddum málið. Núna, 12. mars, erum við fyrst að fara yfir þessa þætti. Það má færa rök fyrir því að nokkuð skýr mynd sé komin á svör við þeim spurningum sem ég sendi til ráðherra 27. febrúar þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hafi ekki svarað þeim. Sumar eru þess eðlis að það er afskaplega mikilvægt að þeim verði svarað.

Þetta eru átta spurningar, virðulegi forseti:

1. Af hverju voru ráðuneytið og eftirlitsstofnanir ekki búin undir dóm Hæstaréttar? Það þekki ég afskaplega vel sem nefndarmaður í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að þessir aðilar voru ekki viðbúnir þessum dómi. Það er bæði óútskýrt og óskiljanlegt.

2. Hvaða fordæmi telur ráðherra að dómurinn gefi? Nú hefur ráðherra haft mjög góðan tíma til að fara yfir þessi mál og skoða þau og væri fróðlegt að heyra hvaða skoðun hæstv. ráðherra hefur á því hvað þetta muni hafa í för með sér eftir að vera búinn að gaumgæfa málið í þennan tíma.

3. Mun ráðherra beita sér fyrir flýtimeðferð í dómskerfinu fyrir þau mál sem út af standa og geta eytt óvissu og aukið sátt? Þarna hefur komið í ljós að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki verið með neitt frumkvæði í þessu og kannski ekki mikið komið að því vegna þess að hv. efnahags- og viðskiptanefnd er búin að vinna að þessu síðan þetta var. Mér sýnist, virðulegi forseti, sátt um að við klárum það mál sem allra fyrst.

Ég vek athygli á því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom með slíkt mál inn í þingið þann 24. júní árið 2010 og ef það hefði verið samþykkt værum við ekki í þeim mikla vandræðagangi sem við erum í núna. Vegna þess að hér er um að ræða mál sem var flutt af sjálfstæðismönnum var ekki fjallað um það og það ekki klárað.

4. Hefur verið lagt mat á það hversu margir er falla undir þennan dóm hafa misst eigur sínar? Margt fólk hefur væntanlega misst eigur sínar vegna þess að þessi lán hafa verið rangt reiknuð út.

5. Munu Seðlabankinn og FME gefa út tilmæli um verklagsreglur um uppgjör þessara lána?

6. Hvað ráðleggur ráðherra fólki með gengislán að gera? Það hefur verið mjög hljótt um hæstv. ráðherra í þessu máli sem er svolítið sérkennilegt út af því hversu stórt málið er. Ég held að það væri æskilegt að hæstv. ráðherra gæfi skýrt út hvað hann teldi að þeir einstaklingar ættu að gera sem eiga þessi lán og eiga hugsanlega einhverja betri úrlausn en þeir hafa fengið með þeim endurreikningum sem hafa verið lagðir fram til þessa.

7. Af hverju voru engir fyrirvarar í samningum milli gömlu og nýju bankanna um ólögleg lán? Þetta er gríðarlega stórt mál og tengist líka áttundu og síðustu spurningunni:

8. Er búið að áætla hversu mikið ólöglegu lánin kosta fjármálastofnanir?

Virðulegi forseti. Ef við trúum því að svigrúm bankanna sé einhver lokuð stærð liggur alveg fyrir að ef ekki voru gerðir neinir fyrirvarar með niðurstöðum þessara dóma hefur verið gengið á það svigrúm sem bankarnir höfðu hugsanlega fyrir annað fólk sem var ekki með þessi lán. Ef ekki hafa verið gerðar neinar ráðstafanir og þessi lán bara færð yfir með hefðbundnum afslætti, getum við sagt, hefur það komið einstaklega illa niður á þeim sem voru með verðtryggð lán vegna þess að þar er þá væntanlega svigrúmið minna. Til að menn geti rætt þetta málefnalega út frá staðreyndum og forsendum tel ég afskaplega mikilvægt að við fáum að vita stöðu þessara mála. Voru gerðir fyrirvarar og ef ekki, hvaða afleiðingar hafði það? Var gert ráð fyrir þessu í afsláttum til bankanna varðandi þessar tegundir lána? (Forseti hringir.) Ef ekki, hversu mikið kostaði þetta bankana og hvaða afleiðingar hafði það fyrir þá aðila sem eru með annars konar lán, virðulegi forseti?