140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

samskipti lækna og framleiðenda lyfja og lækningatækja.

433. mál
[16:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. velferðarráðherra um samskipti lækna og framleiðenda lyfja og lækningatækja. Ástæðan fyrir þessu er sú að að undanförnu hefur verið mjög mikil umræða um fölsun — ekki galla heldur fölsun — á brjóstafyllingum frá Frakklandi og fleiri hundruð konur bara hér á Íslandi, hundruð þúsunda á heimsvísu, hafa fengið falsaða brjóstapúða á einkastofu yfirlæknis á Landspítalanum. Í dag er unnið að því að greina áhrif þessara leku brjóstapúða og fjarlægja þá.

Ástæðan fyrir fyrirspurninni eru þó ekki akkúrat fölsuðu púðarnir út af fyrir sig heldur sú staðreynd að þegar málið kom upp kom í ljós að læknirinn hafði sjálfur staðið í innflutningi á þessum púðum í samstarfi við konu sína. Í framhaldi af því fór ég að velta fyrir mér hvernig eftirliti væri háttað með samskiptum milli lækna og framleiðenda lækningatækja og líka lyfja. Ábendingar hafa komið á borð okkar þingmanna um að mikilvægt væri að skoða hvernig samskiptum lækna og framleiðenda eða dreifingaraðila lyfja væri háttað, sérstaklega í ljósi þess að í Bandaríkjunum eru nú að taka gildi reglur þess efnis að ákveðin stofnun á vegum hins opinbera haldi utan um upplýsingar um það sem þeir kalla hagsmunatengsl heilbrigðisstarfsmanna og heilbrigðisstofnana við framleiðendur, dreifingaraðila og umboðsaðila lyfja og lækningatækja sem ríkið tekur þátt í greiðslu á. Sett er mjög lágt viðmið, 10 dollara lágmark, allar upphæðir yfir 10 dollurum verður að gefa upp. Það eru framleiðendurnir eða raunar fyrirtækin sjálf sem bera ábyrgð á því að skila þessum upplýsingum til eftirlitsaðila. Hugmyndin með þessu er að tryggja að sjúklingar hafi aðgang að upplýsingum sem gætu hugsanlega haft áhrif á mat þeirra á viðkomandi heilbrigðisstarfsmanni eða heilbrigðisstofnun.

Ég vil velta því upp við hæstv. velferðarráðherra, jafnframt því sem ég óska eftir því að hann fari almennt í gegnum það hvernig eftirliti með þessum samskiptum er háttað, hvort þetta væri eitthvað sem hann teldi að ástæðu til að setja í lög, hugsanlega lög um heilbrigðisstarfsmenn sem við í þinginu höfum haft til umfjöllunar. Þó að ég eigi hér fyrst og fremst við lækna vakti það athygli mína að í tilfelli Bandaríkjamanna gilda reglurnar ekki bara um þá einstöku heilbrigðisstétt (Forseti hringir.) heldur alla sem falla undir skilgreiningu um heilbrigðisstarfsmenn og starfa á vegum opinberra heilbrigðisstofnana eða heilbrigðisstofnana sem þiggja opinbert fé.