140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

íþróttaferðamennska.

287. mál
[17:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ísland er þekkt víða um heim í huga áhugamanna um íþróttir og útivist. Hér eru meðal annars stundaðar gönguferðir af öllu tagi sem og ferðir á gönguskíðum, kajaksiglingar, flúðasiglingar og jöklaferðir. Ferðamálayfirvöld vinna að því að tryggja öryggi þessa ferðafólks svo ferðaþjónusta af þessu tagi geti gengið áfallalaust fyrir sig.

Veturinn er sá tími sem horft er til núna enda er lenging ferðamannatímans yfirlýst markmið stjórnvalda svo fjölga megi störfum í ferðaþjónustu, afla gjaldeyris fyrir þjóðarbúið og nýta betur fjárfestingar í greininni. Ferðamaðurinn sem hingað kemur þarf að eiga völ á upplifun af ýmsu tagi og er þá ekki síst horft til ævintýraferða eins og ég nefndi hér á undan.

Á umliðnum árum hefur talsvert uppbyggingarstarf átt sér stað hér á landi á vegum ríkisins og einnig á vegum sveitarfélaga í aðstöðu sem nýst hefur til að efla íþróttir og ferðamennsku. Sérstaklega er vert að nefna stikun og merkingu gönguleiða um allt land. Ferðamálastofa, Landmælingar Íslands og Ungmennafélag Íslands hafa með sér samstarf um vefinn ganga.is þar sem finna má fjölda gönguleiða vítt og breitt um landið. Þá eru Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður ásamt áhugamannafélögum um allt land öflug í lagningu, merkingum og viðhaldi göngustíga sem er eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna á viðkomandi svæðum auk þess að tryggja betur öryggi þeirra sem um landið fara.

Töluvert hefur gerst varðandi uppbyggingu skíðasvæða og hefur verið lögð áhersla á að byggja upp aðstöðu fyrir vetraríþróttir á Akureyri. Þetta hefur skilað sér í mikilli fjölgun ferðafólks á Norðurlandi að vetri til og hafa ferðaþjónustuaðilar þar nú þegar tekið höndum saman um stofnun klasa sem hefur lengingu ferðamannatímans að leiðarljósi. Uppbygging reiðhalla hefur einnig verið töluverð auk annarrar aðstöðu fyrir hestaíþróttir. Einnig kom iðnaðarráðuneytið ásamt meðal annars Icelandair og Reykjavíkurborg að Hestadögum í Reykjavík 2011 sem Landssamband hestamannafélaga stóð fyrir í vor til að kynna íslenska hestinn fyrir erlendum ferðamönnum og jafnframt stofna til áhugaverðs viðburðar utan hefðbundins ferðamannatíma. Þá hafa einstakar markaðsstofur notað hluta af því fé sem þeim er úthlutað frá Ferðamálastofu til að kynna aðstöðu til vetraríþrótta. Á sama hátt hefur opinbert fé verið notað til að kynna alþjóðaviðburði hérlendis er snerta hestaíþróttina.

Ferðamálayfirvöld hafa einnig styrkt starfsemi Golf Iceland sem stofnað var árið 2008 til að kynna golfvelli og aðra aðstöðu fyrir golfáhugamenn erlendis. Ferðamálastofa heldur skrá um sundlaugar, skíðasvæði og golfvelli sem kynntir eru meðal annars á landkynningarvefjum Íslandsstofu. Auk þess má nefna að klasaverkefni um þróun heilsuferðaþjónustu hefur notið fjárhagslegs stuðnings iðnaðarráðuneytisins frá árinu 2010 og verið vistað hjá Ferðamálastofu. Ferðamálastofa er enn fremur að hefja vinnu að verkefni um kortlagningu tækifæra í ferðaþjónustu á Íslandi en innan þess verkefnis verður að sjálfsögðu horft til margvíslegra tækifæra til að þróa ferðaþjónustu sem höfðar til þeirra sem aðhyllast heilbrigðan lífsstíl jafnt á sumri sem vetri.