140. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2012.

íþróttaferðamennska.

287. mál
[17:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem tóku þátt í þessari umræðu og hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svör hennar. Ég vil samt segja eins og er að af þeim að dæma höfum við í rauninni lagt afar litla fjármuni í íþróttatengda ferðamennsku og rannsóknir á henni á undanförnum árum.

Hæstv. iðnaðarráðherra benti hér á Golf Iceland sem fékk ríkisstyrk fyrir þremur, fjórum árum eða fyrir árið 2009. Þau gátu hrundið af stað fjölmiðlaherferð sem leiddi það meðal annars af sér að Golfing World, sem er þáttur á heimsvísu í hinum sívaxandi golfiðnaði og veltir milljörðum, kom hingað til lands og bjó til fimm þætti, einhver besta kynning sem Ísland hefur fengið á þessu sviði. Það er gott að minnast á hestinn og möguleika tengda honum. Hann verður okkar flaggskip svo sannarlega. Mér finnst líka vannýttir möguleikar hvað varðar Vetraríþróttamiðstöðina á Akureyri og á Tröllaskaga almennt svo ekki sé talað um hið fagra Austurland og þær skíðalyftur sem þar eru.

Ég tel að ríkisstjórnin þurfi aðeins að vakna af þeim dvala sem hún hefur verið í hvað varðar íþróttatengda ferðamennsku. Fara þarf í rannsóknir á því hvers konar ferðamenn koma til landsins. Ríkissjóður fór í herferð og setti einhverja peninga í þetta og rannsaka þarf hvort þeir peningar hafi raunverulega skilað sér. Það liggur ekki fyrir á þessu stigi málsins. Við erum að tala um hluti sem geta skilað ríkissjóði milljónum ef ekki tugum milljóna á næstu árum í ríkissjóð og ekki veitir af.