141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

417. mál
[16:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en ég er ekki sáttur við það, langt í frá. Það að það þurfi dóma frá Hæstarétti til að hrekja stjórnvöld úr einu víginu í annað finnst mér ekki góð pólitík, og alveg sérstaklega þegar um er að ræða stjórnarskrá sem segir að það sé félagafrelsi og menn geti stofnað stéttarfélög eða látið það vera. Eins er með þessa skattahlið.

Núna er staðan þannig að opinberir starfsmenn, t.d. á einni deild í Landspítalanum, sem eru ósáttir við kjör sín geta ekki stofnað stéttarfélag og barist fyrir kjörum sínum af því að ríkið verður að semja við hið opinbera stéttarfélag, eins og í Sovét. Það er sem sagt bara eitt stéttarfélag sem má semja fyrir hönd viðkomandi starfsmanna. Þetta er brot á félagaréttinum og ég tel að ríkisvaldið ætti að sjá sóma sinn í því að fara í athugun á þessu og afnema þetta ef þau vilja ekki alltaf láta hrekja sig.