143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

skýrsla Alþjóðastofnunar háskólans um ESB.

[10:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og alþjóð er kunnugt gerði hæstv. forsætisráðherra sér ferð á viðskiptaþing í síðustu viku til að segja atvinnulífinu ekki það sem það vildi heyra. Hann dró ekki af sér í ræðuhöldum þar og fengu þau þá einkunn hjá formanni Viðskiptaráðs að fundarmenn hefðu almennt verið forviða yfir boðskapnum.

Eins og þessi framganga gagnvart atvinnulífinu sé ekki nóg máttum við heyra í vikunni hæstv. utanríkisráðherra slá út af borðinu þá skýrslu sem nú er í vinnslu á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um aðildarferlið, að beiðni aðila vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfingarinnar, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs, með þeim orðum að hann gæti ekki séð að sú skýrsla hefði nokkur áhrif á það sem við erum að gera, enda væri sú skýrsla pöntuð af fylgjendum ESB. Látum vera að hæstv. utanríkisráðherra ásaki með þessum hætti rannsóknarstofnun háskólans um hlutdrægni í þágu verkbeiðenda, hafandi sjálfur nýverið beðið um skýrslu frá annarri háskólastofnun, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Það er eitt út af fyrir sig.

Það er kannski líka markmið ríkisstjórnarinnar að troða illsakir við aðila vinnumarkaðarins og ná ekki samstöðu um nokkurn hlut í samfélaginu. En er það ekki til farsældar fallið að reyna að skapa samtal við hagsmunasamtök á vinnumarkaði? Er ekki eðlilegt að taka í útrétta hönd þeirra samtaka og eiga efnislegar viðræður við þau um stöðu aðildarviðræðnanna? Er ekki sjálfgefið að við hér á Alþingi tökum fagnandi þeirri skýrslu sem aðilar vinnumarkaðarins hafa óskað eftir að verði gerð (Forseti hringir.) og tökum hana til vinnslu í utanríkismálanefnd ásamt þeirri skýrslu sem utanríkisráðherra kynnti hér í gær?