143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

þjóðmálaumræðan.

[10:46]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Enn og aftur erum við nú í grófum dráttum sammála, sammála um að það sé æskilegt að menn hafi ólíkar skoðanir og rökræði. En þessi ofurviðkvæmni fyrir því að skoðanir ákveðinna aðila séu gagnrýndar er mjög undarleg. Ef menn trúa því raunverulega að æskilegt sé að stuðla að rökræðu í samfélaginu og æskilegt að menn lýsi ólíkum skoðunum verða þeir líka að sætta sig við að það þýði að skoðanabræður muni fá yfir sig gagnrýni. Það að einhver starfi á tilteknum vinnustað, hvort sem það er háskólinn eða einhver annar vinnustaður, þýðir ekki að viðkomandi sé hafinn yfir gagnrýni. Ef viðkomandi setur fram skoðanir sem eru jafnvel illa rökstuddar, jafnvel með rangfærslur, er eðlilegt að benda á það sama þó að hann starfi í háskóla. Ef menn vilja raunverulega rökræðu í samfélaginu eiga þeir að vera tilbúnir að rökræða við hvern sem er, hvar sem viðkomandi starfar.