143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:26]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa söguskýringu. Forseta vorum fannst gott að taka þetta fram. Ég tók það þannig að við ættum alltaf að spyrja þjóðina í stórum málum hvað við ættum að gera. Mér hefur fundist það. Við getum ekki talað um það í þingræðum og hátíðarstundum að við viljum efla samstöðu þjóðarinnar og auka samtakamátt, útmá tortryggni og sundurlyndi í samfélaginu og meina svo ekkert með því. Þetta er stór hluti af því. Ég þori eiginlega alveg að fullyrða, þó að ég megi það svo sem ekki, að það eru meira að segja 60% kjósenda Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks samkvæmt síðustu skoðanakönnun — ég veit að hv. þingmaður kann að túlka þær — sem eru með því að klára aðildarviðræðurnar. Það eru um 70% sem vilja það. Við getum ekki hunsað það. Við getum það ekki.

Síðasta ríkisstjórn fékk á sig tvær þjóðaratkvæðagreiðslur í Icesave-málinu. Hvernig brást hún við þeim niðurstöðum? Fór hún að berjast gegn því með látum og neita að taka þátt í því? Nei, hún vann bara málið samkvæmt þjóðarvilja. Og við unnum það sællar minningar. Hún brást ekki þjóðinni hvað það varðar. Hún fór nákvæmlega eftir því sem þjóðaratkvæðagreiðslan sagði. Nákvæmlega. Það er þannig sem fólk á að vinna hvort sem það ert hlynnt því að ganga inn í Evrópusambandið eða ekki. Ég held nú að dálítið margir sjálfstæðismenn séu hlynntir því að fara þangað inn. Maður heyrir það til dæmis að fyrrverandi varaformaður flokksins telur þetta einhver almestu mistök sem hafa verið gerð að hætta þessu ferli. Það er kona sem ég ber mikla virðingu fyrir, hefur staðið sig vel sem stjórnmálamaður á Íslandi.