144. löggjafarþing — 66. fundur,  16. feb. 2015.

lax- og silungsveiði.

514. mál
[16:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 891, sem er 514. mál, en um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði. Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, í samvinnu við Landssamband veiðifélaga. Með því eru lagðar til þær breytingar að lögfestar verði þar reglur um meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélaga.

Unnin hefur verið álitsgerð um eðli, réttarstöðu og heimildir veiðifélaga fyrir Landssamband veiðifélaga af Stefáni Má Stefánssyni, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Eyvindi G. Gunnarssyni, dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Þar kemur fram að þrátt fyrir að veiðifélög séu sjálfstæðir lögaðilar séu þau sérstaks eðlis sem leiði af þeim markmiðum laga nr. 61/2006 að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Það hafi þá þýðingu meðal annars að skylduaðild sé að veiðifélögunum og þeim séu falin tiltekin verkefni með lögum, auk þess sem sjálfstæðar eignir veiðifélags tilheyri þeim fasteignum á félagssvæðinu sem veiðirétt eiga í arðskrárhlutfalli samanber 37. gr. laganna.

Tilefni þessa frumvarps er einnig dómur Hæstaréttar Íslands, dagsettur 13. mars 2014, í máli nr. 676/2013, þar sem kemur fram að samþykki allra félagsmanna veiðifélags verði að liggja fyrir til að heimilt sé að ráðstafa veiðihúsi í eigu veiðifélags til leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar utan veiðitíma. Forsendur dómsins voru byggðar á því meðal annars að réttarstaða veiðifélaga væri ekki skilgreind með skýrum hætti í lögum nr. 61/2006 hvað varðar meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélags, en þó væri ljóst að skipan mála innan þeirra og í skiptum út á við væri með sama hætti og þegar eignarréttindi að tilteknu verðmæti væru í sérstakri sameign, auk þess sem hafa mætti nokkra hliðsjón af lagaákvæðum um afmarkaða flokka sérstakrar sameignar, eins og reglum laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús.

Eins og ráða má af framangreindri álitsgerð og dómnum skortir lagareglur um meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélaga sem brýnt er að bæta úr. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á 37. gr. laga nr. 61/2006, um lax og silungsveiði, sem fjallar um starfsemi veiðifélaga á þann veg að bætt verði við nýjum staflið, sem verði e-liður, þess efnis að hlutverk veiðifélags sé meðal annars að nýta eignir veiðifélags og ráðstafa þeim með sem arðbærustum hætti fyrir félagsmenn. Einnig er þar ákvæði um að veiðifélagi sé heimilt að ráðstafa eign félagsins utan veiðitíma til skyldrar starfsemi.

Um meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélaga eru engin ákvæði í gildandi lögum. Því þótti rétt að bæta við lögin nýju almennu ákvæði um meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélaga. Einnig var talið rétt að bæta við lögin sérstöku ákvæði um heimild veiðifélags til að ráðstafa eign þess utan veiðitíma til skyldrar starfsemi. Með því er ætlunin að tryggja að veiðifélög geti nýtt eignir til arðberandi starfsemi utan veiðitíma, en þó þannig að þær séu nýttar til skyldrar starfsemi eins og gerist um veiðitíma. Ákvæðið hefur þá þýðingu að löglega boðaður fundur í veiðifélagi geti tekið slíka ákvörðun með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi í stað þess að afla þurfi samþykkis allra veiðiréttarhafa félagsins.

Frumvarpið byggir á þeim rökum meðal annars að veiðifélög eru sjálfstæðir lögaðilar og eru fjárhagslegs eðlis og fara, á grundvelli skylduaðildar veiðiréttarhafa að félaginu, með ráðstöfun fjárhagslegra eigna þeirra. Því ber stjórnum veiðifélaga að leitast við að hámarka þann arð sem veiðiréttarhafar geta fengið af arðberandi eign sinni í veiðifélaginu líkt og á við um ráðstöfun veiðiréttar á félagssvæðinu.

Virðulegi forseti. Meðfylgjandi er kostnaðarumsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis um frumvarpið. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frumvarpinu, en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.