145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

ráðstöfum eigna á Stjórnarráðsreit.

[15:17]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er ekki komið neitt mál til þess að samþykkja í ríkisstjórn. Það eina sem hefur gerst í þessu er að fulltrúar ráðuneytisins hafa fallist á boð þessa fyrirtækis um að eiga viðræður um aðkomu að þessu húsnæði á einn eða annan hátt. Þar eru menn opnir fyrir því að skoða ólíkar leiðir og ég ætla ekki að fara að skipa mönnum fyrir úr þessari pontu eða annars staðar frá um það hvaða lending á að nást í því á meðan við vitum ekki hvað raunverulega stendur þarna til boða. Það er ekkert óeðlilegt að menn skoði þetta og reyndar ekki verið að gera það í fyrsta skipti. Það hefur lengi verið til skoðunar að finna nýtt húsnæði fyrir Stjórnarráðið eða hluta þess. Sú þörf er orðin mjög knýjandi núna vegna þess að að minnsta kosti forsætisráðuneytið er að missa það húsnæði sem megnið af ráðuneytinu hefur haft aðstöðu í. Þar af leiðandi er óhjákvæmilegt að leita leiða til að leysa úr því. Að sjálfsögðu, komi til undirritunar samnings um einhvers konar makaskipti, leigusamnings eða annars slíks, fer það eftir þeim reglum sem almennt gilda um slíkt.