151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

varnarmálalög.

485. mál
[13:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tek nefnilega undir það í ljósi þess að við erum bæði, held ég, þannig einstaklingar að við viljum tryggja lýðræðið. Við viljum tryggja umræðuna og við teljum upplýsingar, gegnsæi og samtal, ekki síst í þessum mikilvæga sal, af hinu góða. Ég held að það muni ekki bara auka vigt lýðræðisins heldur áhrif þess líka. Ég er talskona þess að við verðum áfram fullir þátttakendur í varnarbandalaginu og ég hef oft tekið setu okkar við borðið í NATO sem gott dæmi um það að við höfum áhrif. Við höfum vigt með því að vera við borðið. Við höfum okkar rödd þar og höfum nýtt hana ágætlega í gegnum tíðina þó að það hafi vissulega verið umdeilanlegt líka.

Ég held einmitt að með því að færa ákvarðanir hingað í salinn þvert á flokkslínur geti það aukið skilning m.a. á eðli varnarbandalagsins og á hlutverki þess, af því að ekki síst núna stendur NATO frammi fyrir mjög miklum breytingum. Við erum að tala um upplýsingaóreiðu, netöryggi og loftslagsmál. Ég hjó eftir því á Twitter að Stoltenberg var að taka m.a. á móti John Kerry og lagði áherslu á það að NATO þyrfti að bregðast við og hafa frekari forystu um að berjast við loftslagsvána, þannig að eðli málsins samkvæmt erum við að sjá hlutverk NATO breytast. Ég ætla rétt að vona það, enda nýjar ógnir líka sem við stöndum frammi fyrir.

Ég tel því mikilvægt að frumvarp hv. þingmanns fái afgreiðslu. Það er ekki þannig að það sé brjálað að gera hjá okkur í utanríkismálanefnd. Ég sit þar, hef setið þar allt kjörtímabilið, og segi við hv. þingmann að ég mun leggja mig fram um að fá samtal, samræðu og vonandi efnislega og málefnalega afgreiðslu þessarar tillögu af því að ég held að hún sé einfaldlega liður í því að við getum átt málefnalegt samtal og umræðu um jafn mikilvægt bandalag og varnarsamstarf okkar er meðal NATO-ríkjanna.