151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

varnarmálalög.

485. mál
[13:37]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Mér finnst þetta samtal á milli mín og hv. þingmanns einfaldlega vera sönnun þess að tillagan sé góð, að við nálgumst málið, þ.e. aðild Íslands að NATO og veru erlends herliðs hér, algjörlega hvort frá sínum sjónarhól en erum sammála um að Alþingi eigi að fjalla meira um þau mál og taka frekari ákvarðanir um málið.

Hv. þingmaður talar um áhrif okkar innan NATO og þau skipti máli og ég er alveg sammála því. Á síðustu árum hafa Íslendingar beitt áhrifum sínum innan NATO í rétta átt miðað við það sem oft hefur verið áður í sögunni. Ég hef verið ánægður innan þeirra marka. Ég er óánægður með NATO yfir höfuð og með ýmsar áherslur hæstv. utanríkisráðherra en áhrifum fylgir líka ábyrgð. Og eins og við höfum áhrif innan NATO berum við líka ábyrgð á öllu því sem NATO gerir, ekki bara verkefnum í jafnréttismálum eða könnunum á netöryggismálum eða samtölum við John Kerry, heldur líka loftárásum og innrásum í önnur ríki (Gripið fram í.) og líka því að fólk er drepið í Líbíu, í Afganistan og á Balkanskaganum, það hefur verið rætt í þessum þingsal eins og hv. þingmaður veit. Við getum ekki bara sagt: Áhrif okkar skipta máli og við ætlum að vera með í þessu nútímalega og flotta, sem er netöryggið, og vera hipp og kúl, heldur verðum við líka að bera ábyrgð á kjarnorkuvopnauppbyggingu, við þurfum að bera ábyrgð á vopnaframleiðslu o.s.frv. En þarna er ég kominn efnislega í umræður um Atlantshafsbandalagið. Ég hefði kannski viljað halda áfram þeirri góðu umræðu sem var hér í gær um hvort Ísland ætlaði að vera áfram aðili að NATO. Mér finnst aftur, eins og ég segi, samræður og samtal okkar hv. þingmanns sýna hvað málið er í grunninn gott. Ég held að við hv. þingmaður ættum bara að skrifa grein saman um málið.(Gripið fram í.)