151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[14:44]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum kallað þetta hænuskref. Já, við getum notað frasa eins og sígandi lukka er best, það er allt saman hárrétt. Hænuskrefið mitt er auðvitað bara að afnema einkaréttinn. Það er lítið skref og ofboðslega einfalt. Ég er ekkert að tala um að þetta þurfi endilega að vera í öllum matvörubúðum. Við getum kallað það skref að afnema þetta og þess vegna sagði ég að ég ætlaði ekki að setja mig upp á móti frumvarpinu, alveg fjarri lagi. En það þreytir mig svolítið að vera í þessu hálfkáki sem mismunar líka mönnum eftir því hve fyrirtækin eru stór, hvað þau framleiða mikið. Af hverju gildir það þá ekki um alla framleiðslustaði? Það er það sem ég finn helst að þessu. Ég verð að segja að oft eru notuð þau rök að þetta sé ekki venjuleg vara. Þetta er matvara. Það líta allir í hinum stóra heimi á bjór, rauðvín og hvítvín sem venjulega matvöru, bara hluta af matnum. En maður getur fundið fyrir áfengisáhrifum ef maður drekkur mjög mikið af því. Þá byrjar allt þetta einhvern veginn að tikka, að við getum ekki leyft þetta, að það verði að banna það. Hættum því. Ég hef líka alltaf sagt, þegar menn tala um lýðheilsusjónarmið, að lýðheilsuvandamálið sé annað en varan sjálf. Það er eitthvað sem er að baki því að við misnotum þessar vörur.