151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[16:08]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta snýst allt um frelsi einstaklingsins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur barist fyrir frelsi einstaklingsins alla tíð og var lengst af eini flokkurinn sem eitthvað gerði í því. Það er alveg rétt að þetta snýst ekki bara um eitthvert viðskiptafrelsi. Einstaklingurinn er alltaf að hugsa um að bæta sinn hag með einum eða öðrum hætti og það þarf ekki bara að vera fjárhagslegur hagur. Einstaklingurinn vill frelsi. Við vitum að hann fer ekki alltaf vel með frelsið sitt. Við erum aldrei fullkomlega skynsöm. En ég segi alltaf: Það er miklu mikilvægara að hafa þetta frelsi, að lifa í slíku samfélagi, heldur en að menn komi alltaf með einhverja útreikninga um að þetta geti nú verið skaðlegt, að við þurfum þá einhvern veginn að hindra eða takmarka eða banna. Hættum því . Ég er í sjálfu sér ekki að hugsa mjög mikið akkúrat um einstaklinginn í sjálfu sér. Ég er bara að tala um umhverfið. Einstaklingurinn hefur í dag gott aðgengi að áfengi. Ástæðan fyrir því að ég tók til máls yfir höfuð var til að segja að við verðum að koma okkur út úr því að ríkið hafi einkaleyfi á sölu áfengis. Það er bara stórt atriði fyrir landsbyggðina, fyrir smærri samfélög, að geta bruggað, geta selt áfengi á staðnum. Þetta er bara hagsmunamál, ekki bara fyrir einstaklinginn heldur fyrir samfélagið í heild. Við erum alltaf að búa til takmarkanir og við veifum alltaf einhverjum sjónarmiðum um lýðheilsu. Við verðum að komast út úr því. Þrátt fyrir allt þetta lifum við sífellt lengur og erum raunverulega sífellt heilbrigðari. (Forseti hringir.) En alltaf höfum við þessa þörf fyrir að takmarka frelsi fólks.