Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

greinargerð um sölu Lindarhvols.

[14:11]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Í ljósi orða hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur hér áðan, sem hvatti forseta til að birta þau skjöl og lögfræðiálit sem liggja fyrir, er rétt að minna á að þingflokkur Miðflokksins fékk utanaðkomandi lögmann til að vinna úttekt seinni part liðins kjörtímabils og ég skal bara senda þá úttekt á hæstv. forseta, hafi hann hana ekki tiltæka. Það væri þá í öllu falli sjálfsagt hvað þingflokk Miðflokksins varðar að sú greinargerð yrði birt með öðrum upplýsingum.

Það verður auðvitað að hafa í huga samhengi þessa máls. Settur ríkisendurskoðandi var fulltrúi Alþingis í þessu máli og umræddur maður, Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi til 20 ára, telur skuggalegt að greinargerð sín um Lindarhvol sé ekki lögð fram. Hér segir, með leyfi forseta, örstutt: Sigurður Þórðarson, fyrrverandi (Forseti hringir.) ríkisendurskoðandi, furðar sig á því hvers vegna greinargerð um Lindarhvol, sem hann skilaði Alþingi árið 2018, sé ekki gerð opinber.

Þarf nokkuð frekari vitnanna við? Auðvitað á að birta þessa greinargerð hið snarasta.