154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

mótun heildstæðrar stefnu um áfengis- og vímuefnavarnir.

30. mál
[16:41]
Horfa

Sigþrúður Ármann (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa þingsályktunartillögu. Eins og fram hefur komið er áfengis- og vímuefnavandinn viðamikið og flókið heilbrigðismál og veldur tugum dauðsfalla á Íslandi á hverju ári og því er mikilvægt að stjórnvöld hafi skýra stefnu í málaflokknum. Eins og fram hefur komið hefur notkun á ópíóíðalyfjum aukist verulega með hrikalegum afleiðingum. Þar sem um verulega ávanabindandi lyf er að ræða, og í raun má segja stórhættuleg lyf og ekki, eins og upphaflega var talað um gagnvart lyfjaeftirliti í Bandaríkjunum, skaðlaus, þvert á móti, þá verðum við að skoða í hvaða tilfellum læknar eru að ávísa þessum lyfjum til sjúklinga, að hvaða marki og hvernig fræðslu er háttað til sjúklinga og aðstandenda þeirra sem fá þessi lyf. Ég þekki nýlegt dæmi þar sem 16 ára unglingi var ávísað tveggja vikna skammti af oxycontin eftir aðgerð á barnadeild Landspítalans. Upplýsingagjöf til foreldra var verulega ábótavant. Eftir að þau áttuðu sig á því um hvaða lyf væri að ræða eftir tæplega tveggja daga notkun þá tóku þau barn sitt af þessu lyfi og gáfu því miklu vægara verkjalyf sem dugði í þessu tilfelli. Þess vegna legg ég áherslu á það og finnst mikilvægt að í þessari heildstæðu stefnu sé horft til þessara þátta, að við horfum á hver rótin er og bregðumst við því.