154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

mótun heildstæðrar stefnu um áfengis- og vímuefnavarnir.

30. mál
[17:32]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hér er ekki verið að tala um að banna áfengi, síður en svo. Áfengi er lögleg neysluvara. Það er aðgengi sem er takmarkað með því að við höfum haft síðan 1922 þessa takmörkun um að áfengissala ríkisins eða ríkið hafi einkarétt á smásölunni. Þannig að þetta er leyft. Þetta er sennilega hættulegasta ávanabindandi efni sem til er, vilja margir meina, sem ég þekki bara í gegnum lífsleiðina sem hafa verið háðir öðrum efnum. Þetta er félagslega skaðlegasta ávanabindandi efnið, vímugjafinn. Hann er takmarkaður, við höfum komið okkur saman um að gera það. Í landi frelsisins, Bandaríkjunum, er meira en helmingur ríkjanna þar með svokallaðar „state liquor stores“. Það er takmörkun á sölu þar. Allt sterkt áfengi í mörgum ríkjum er selt samkvæmt „state liquor store“, gefa leyfi til ákveðinna búða og það eru miklar takmarkanir þar. Þegar ég var í Bandaríkjunum sem skiptinemi varð maður að vera 21 árs til að mega kaupa áfengi. Það var bannað þar í tvo, þrjá áratugi á fyrri hluta síðustu aldar. Það er takmarkað aðgengi þar líka. En við virðumst ætla bara að leyfa þetta á netinu eins og enginn sé morgundagurinn, algjörlega stjórnlaust. Svo á að koma með frumvarp til að lögleiða hluta — það er haldið fram að þetta sé löglegt en það á samt að koma með frumvarp til að lögleiða það sem þegar er löglegt. Þeir halda því fram að það sé löglegt í dag en ætla samt að koma með frumvarp til að gera það sem þeir segja að sé löglegt aftur löglegt. Þetta er svo vitlaust að það er alveg með ólíkindum.

Vandamálið er líka að íslenska ríkið rekur ekki svona áfengissjúkrahús, það eru einkaaðilar sem gera það, það er SÁÁ. Við erum í hverjum desembermánuði, minn flokkur, með breytingartillögur um að auka fjármagn til þess — alltaf hafnað. Við gerðum það fyrir Hlaðgerðarkot, Krýsuvík og fleiri samtök til að takast á við afleiðingar af áfengisvandamálinu. Okkur hefur tekist mjög vel — auðvitað, þetta er bara einn hluti, það er takmörkun á aðgengi. Við þurfum líka að taka á afleiðingunum eins vel og við getum með sjúkrahúsi. (Forseti hringir.) Við erum líka með takmörkun varðandi unglinga og það hefur tekist mjög vel varðandi samninga foreldra við skóla og annað slíkt og við erum með ákveðið módel úti í heimi hvað þetta varðar. (Forseti hringir.) Áfengisdrykkja var mest á mínum ungdómsárum í Evrópu, nú er hún minnst hjá unglingum. (Forseti hringir.) Við eigum að halda núverandi kerfi, það er það sem við eigum að gera.