132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Svæðisútvarp á Vesturlandi.

486. mál
[13:10]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Pólitísk markmið ríkisstjórnar koma fram í frumvörpum og í ríkisútvarpsfrumvarpinu, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson gat um, er kveðið á um að ríkið skuli a.m.k. reka eina hljóðvarpsrás. Það geta menn svo túlkað uppi í Ríkisútvarpi, hvort selja eigi Rás 2 eða leggja hana niður og um afdrif svæðisútvarpanna geta menn rétt ímyndað sér.

Reynslan af svæðisútvörpunum er góð. Fyrir nokkrum missirum hóf Ríkisútvarpið rekstur á svæðisútvarpi á Suðurlandi, sem er mjög gott útvarp, fínasta útvarp. Það hefur skipt máli. Það flytur öflugar fréttir af svæðinu og maður heyrir viðhorf og sjónarmið sem maður mundi ekki heyra annars. Þetta efldi mjög miðlun á svæðinu og er mjög gott og mikilvægt byggðamál sem þjappar fólki saman.

Það væri því ágætt að þau skilaboð kæmu frá þinginu að svæðisútvörpin skuli lifa, þeim skuli fjölgað og auðvitað væri gott að sjá svæðisútvarp á Vesturlandi, rétt eins og á Suðurlandi þar sem byggðirnar eru sambærilega að mörgu leyti.