132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Svæðisútvarp á Vesturlandi.

486. mál
[13:11]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svarið en verð að segja að ég er hálfsorgmædd yfir því. Það veldur mér djúpum vonbrigðum, ekki endilega vegna þess að ég hafi búist við því að hæstv. menntamálaráðherra ætlaði að færa Vestlendingum svæðisútvarp á silfurfati á morgun eða hinn daginn heldur virtist mér koma fram algert afskiptaleysi af hálfu hæstv. ráðherra að því leyti. Hún segir að hún hafi ekki heimild til að skipta sér af því hvort sett verði upp svæðisútvarp eða ekki.

Það er að vísu hárrétt hjá hæstv. ráðherra að Ríkisútvarpið hefur ákveðið sjálfstæði. En allir eldri en tvævetur hljóta að gera sér grein fyrir því að hæstv. ráðherra er yfirmaður stofnunarinnar og hlýtur að geta beitt sér og látið í ljós ákveðinn vilja.

Menn hafa gefið mat sitt á starfsemi svæðisútvarpa, sem hefur verið mjög gott. Við sem fáum að njóta svæðisútvarpa vitum hve mikilvæg þau eru. Það er hárrétt sem kom fram í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, að svæðisútvörpin eru mikilvæg fyrir heildarrekstur Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið á að vera útvarp allra landsmanna en ekki einstefnumiðill. Svæðisstöðvarnar miðla til Ríkisútvarpsins sem miðlar síðan efni á landsvísu.

Ég vona að hæstv. menntamálaráðherra muni þrátt fyrir allt beita sér fyrir því að sett verði upp svæðisútvarp á Vesturlandi. En til þess þarf pening og við vitum það sem hér erum að Ríkisútvarpið hefur verið svelt um langt skeið.