132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Barnaklám á netinu.

506. mál
[14:50]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Söndru Franks fyrir þessa fyrirspurn. Það hefur margoft komið fram í þessari stuttu umræðu að um gífurlega mikilvægt mál er að ræða, ég held að þingheimur allur geti sameinast um það. Það er mjög ánægjulegt að hæstv. dómsmálaráðherra tekur á því eins og raun ber vitni. Eðli málsins samkvæmt þarf að stíga varlega til jarðar þegar um er að ræða persónuréttindi, og þá er ég að vísa í þætti sem tengjast persónuvernd hins almenna netnotanda og öðru slíku, en þó verður að taka á því af einurð og ákveðni. Ég heyri á svörum hæstv. ráðherra að þannig er unnið að málum. Ég vonast til þess að niðurstaða náist sem allra fyrst. Þetta mál er þess eðlis að við þurfum öll að berjast gegn því og með öllum tiltækum ráðum.