135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[15:15]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jóni Magnússyni misheyrist þá, hann virðist heyra ansi margt sem ég segi án þess að ég hafi nokkru sinni sagt það. Það er svolítið merkilegt. Ég benti á að í frumvarpinu væri t.d. verið að auka tekjur fjölskyldna sem gætu haft mjög háar tekjur fyrir. Þá sagði ég sérstaklega: Hér eru hins vegar einstaklingar sem hafa mjög lágar bætur og þar sem við höfum bara einn pott til að spila úr er spurning hvort hækka eigi þá sem hafa allra lökustu kjörin og draga þá úr hækkunum þeirra sem hafa góð kjör sem fjölskylda. Ég get tekið undir að það séu mannréttindi að bætur séu ekki skertar í sjálfu sér en það breytir því ekki að alltaf er um einn pott að ræða.

Ég tók það líka sérstaklega fram að frumvarpið eitt og sér mundi ekki beygja ríkissjóð. Þegar margt kemur saman eru útgjöld ríkisins hins vegar sífellt að aukast og ég er að benda á að almennt séð — og er ekki þar með að segja að ég sé á móti frumvarpinu sem ég er búinn að segja að ég ætli að styðja — erum við að eyða um leið og tekjur eru að dragast saman. Það þarf engan snilling til að átta sig á því að tekjur dragast saman þegar við drögum veiðar á þorski saman um 60 þús. tonn, það þarf engan snilling til að átta sig á því að tekjur ríkissjóðs dragast saman þegar við hættum loðnuveiðum og eitthvað hefur það nú í för með sér þegar bankaumsvifin dragast saman með þeim hætti sem við horfum nú upp á.

Ég styð hins vegar frumvarpið vegna þess að það lýtur að fólki sem hefur mjög lítið á milli handanna. En við þingmenn, af því að við erum ekkert að hætta eftir þennan dag á þingi, þurfum að huga að því að við getum ekki alltaf tekið undir alla aukningu ríkisútgjalda, við getum ekki sífellt verið tilbúin að taka undir það að eyða meiri peningum um leið og við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að tekjur eru að dragast saman eins og ástandið er núna. Það veit sá sem allt veit að ég vona svo sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér og þær dragist ekki saman. Ég vona svo sannarlega að þorskurinn komi til baka, loðnan komi til baka og bankakerfið hjarni við. Það vona ég svo sannarlega.