136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[15:45]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til fjáraukalaga frá minni hluta fjárlaganefndar. Undir það rita auk mín, sem er fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í fjárlaganefnd, þeir hv. þingmenn Magnús Stefánsson, fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd, og Guðjón A. Kristjánsson, fulltrúi Frjálslynda flokksins í fjárlaganefnd.

Áður en ég hef mál mitt, herra forseti, hef ég óskað eftir því að bæði hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði viðstaddir umræðuna þannig að ég geti beint til þeirra spurningum.

Meðan ég bíð eftir að þeir komi í salinn, og áður en ég hef að greina frá framhaldsnefndarálitinu, vil ég víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. Gunnars Svavarssonar. Hann kemur hér álíka bjartsýnn og hann var í fyrra þegar hann mælti fyrir fyrsta fjárlagafrumvarpi sínu. Þá vonaði hann að hann gæti fengið því áorkað að vinnubrögðum yrði breytt til batnaðar — var áfram með þennan stein um hálsinn sem hann ætlaði að reyna að hola, þ.e. þessa sömu ríkisstjórn. Hann vonaði að dropinn holaði steininn hvað varðar bætt vinnubrögð hennar. (Gripið fram í.) Ég verð nú að segja að mikil er trú hans og vissulega hefur formaðurinn verið með nokkra tilburði í þeim efnum en þeir hafa því miður reynst mjög árangurslitlir. (Gripið fram í.) Ef formaður og hv. varaformaður eru ánægðir með þann árangur sem þeir hafa náð í bættum vinnubrögðum tek ég ekki undir það. Ég tel að vinnubrögðin hafi aldrei verið verri við fjáraukalagagerðina en við upplifum þessa dagana.

Fjáraukalagafrumvarpið kom fyrir skömmu til 2. umr. og allar þær upplýsingar sem í því voru gátu hafa legið fyrir í byrjun október. Ekki var minnst einu orði á bankahrunið eða á neinar þær skuldbindingar sem hafa dunið á þjóðinni á þessu ári og þó var frumvarpið ekki lagt fram fyrr en undir miðjan desember. Það virðist ganga afar hægt að aga ríkisstjórnina í þessum efnum. Hv. formaður fjárlaganefndar talar um að beita eigi forstöðumenn einhverjum agatilskipunum í bættum vinnubrögðum við utanumhald fjármuna og vel má vera að það sé nauðsynlegt í einstaka tilvikum, en vandinn er fyrst og fremst ríkisstjórnarinnar og ráðherranna sem fara sínu fram. Hv. formaður og varaformaður fjárlaganefndar, nú eins og fyrr, virðast standa máttlausir gagnvart því. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Ég hefði óskað eftir því að þessir ráðherrar væru viðstaddir umfjöllun mína um nefndarálitið. (Forseti hringir.)

(Forseti (KHG): Forseti vill upplýsa ræðumann um að verið er að gera ráðstafanir til að biðja þá um að koma í þingsalinn.)

Ég sé að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er kominn og ég vona fastlega að hæstv. menntamálaráðherra komi einnig sem fyrst — gott að sjá hæstv. menntamálaráðherra.

Ég vík þá að nefndarálitinu sem minni hluti fjárlaganefndar stendur að, með leyfi forseta:

Ríkisstjórnin hefur lagt fram breytingartillögur við 3. umr. um frumvarp til fjáraukalaga árið 2008. Samkvæmt þeim hækka útgjöld um 1.367,2 millj. kr. og skiptast á sex ráðuneyti. Þau eru forsætisráðuneyti, sem ráðgert er að fái 68 millj. kr., menntamálaráðuneyti 100 millj. kr., dóms- og kirkjumálaráðuneyti 230 millj. kr., heilbrigðisráðuneyti 43,5 millj. kr., samgönguráðuneyti 369 millj. kr. og viðskiptaráðuneyti 556,7 millj. kr. Minni hlutinn vekur athygli á því að engar frekari breytingartillögur komu fram um tekjuáætlun frumvarpsins frá því að það var lagt fram. Minni hlutinn vísar í ítarlegt nefndarálit sitt við 2. umr. um frumvarpið og telur að enn þá sé tekjuáætlunin ofmetin.

Stór hluti hækkunarinnar samkvæmt tillögum meiri hlutans mun fara til Fjármálaeftirlitsins til greiðslu viðbótarkostnaðar sem það hefur haft af setningu neyðarlaganna. Á fundi með fjárlaganefnd hafði viðskiptaráðuneytið tilkynnt að ekki þyrfti að koma til frekari fjárbeiðna Fjármálaeftirlitsins þar sem unnt væri að mæta þessum óvæntu útgjöldum með því að ganga á ónotaðar fjárheimildir. Þá þegar benti minni hlutinn á að ekki væri rétt að draga úr fjárheimildum um 17,1 millj. kr. eins og gert var með breytingartillögu sem samþykkt var af meiri hlutanum eftir 2. umr. þar sem stofnuninni veitti ekki af því sem til væri. Minni hlutinn mætti ekki skilningi hjá meiri hlutanum um þetta sjónarmið og því hlýtur fjárbeiðnin að koma meiri hlutanum mjög á óvart.

Minni hlutinn telur óhjákvæmilegt að nánari grein sé gerð fyrir fjárbeiðni af þessari stærðargráðu þrátt fyrir að í lögum nr. 125/2008 sé heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Minni hlutinn bendir á nauðsyn þess að fjárlaganefnd leggist nánar yfir forsendur fjárbeiðninnar og veittar verði mun ítarlegri upplýsingar um með hvaða hætti þessi kostnaður skiptist og hvaða liðir standi að baki honum. Minni hlutinn telur nauðsynlegt að lögð verði fram kostnaðaráætlun frá Fjármálaeftirlitinu um hvaða fjárhæðir komi til með að lenda á ríkissjóði vegna starfa skilanefndanna á næsta ári. Ekki nægir yfirlýsing frá Fjármálaeftirlitinu frá 4. desember sl. um að á þessum tímapunkti sé — með beinni tilvitnun í skýrslu Fjármálaeftirlitsins — „alls óljóst hve lengi skilanefndirnar munu verða starfandi“. Þá er bent á að í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2009 er ekki lagt mat á þennan fyrirsjáanlega kostnað. Hann er vegna skilanefnda gömlu viðskiptabankanna þriggja, endurskoðunarkostnaðar vegna bráðabirgðastofnefnahagsreikninga bankanna, sem ekki hafa enn litið dagsins ljós, verðmatskostnaðar vegna aðkeyptra sérfræðinga auk annarrar aðkeyptrar sérfræðiþjónustu.

Minni hlutinn bendir á að að minnsta kosti hluti þeirra endurskoðunarskrifstofa sem unnið hafa á vegum skilanefndanna skrifuðu undir ársreikninga gömlu viðskiptabankanna. Ein endurskoðunarskrifstofa hefur sagt sig frá verkinu vegna ábendinga um að hugsanlega megi draga óhæði hennar í efa, en minni hlutinn telur eðlilegt að farið verði yfir óhæði allra sem að þessari vinnu koma til að eyða þeirri tortryggni sem virðist ríkja í garð starfsmanna og sérfræðinga skilanefndanna. Í þessu sambandi bendir minni hlutinn á 6. tölul. 9. gr. laga nr. 18/1997, um endurskoðendur, en þar segir, með leyfi forseta:

„Endurskoðanda er óheimilt að endurskoða hjá stofnunum og fyrirtækjum […] ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.“

Ég vek athygli herra forseta á að í málum sem þessum, svona stórum málum sem þessum, mega slík grundvallaratriði ekki vera neinum vafa undirorpin. Hægt er að velta því fyrir sér hvers vegna skilanefndirnar og Fjármálaeftirlitið, og það á ábyrgð ríkisins, hafa farið fram með þessum hætti — allmörgum vikum eftir að skilanefndir og endurskoðendur hafa tekið til starfa taka menn upp þessar spurningar.

Minni hlutinn telur nauðsynlegt að endurskoðunarskýrslur þeirra vegna endurskoðunar bankanna þriggja síðustu þrjú árin verði lagðar fyrir fjárlaganefnd og hefur minni hlutinn þegar óskað eftir því að svo verði gert. Ríkissjóður hefur nú tekið við ábyrgðinni af stjórn bankanna og tjónið af falli þeirra lendir með beinum hætti á þegnum landsins. Má í því sambandi benda á minnisblað frá fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, dags. 19. des. 2008, þar sem lántökur ríkissjóðs að fjárhæð 840 milljarðar kr. vegna bankanna eru staðfestar og áætluð vaxtagjöld að fjárhæð 45,9 milljarðar kr. Eru þá ótaldar lántökur vegna uppgjörs á Icesave-reikningunum svokölluðu og tengdum innlánsreikningum í útibúum gömlu bankanna erlendis sem líklegt er, miðað við framkomnar upplýsingar, að hlaupa muni á hundruðum milljarða króna með tuga milljarða króna árlegum vaxtakostnaði. Með þessu er ekki átt við að veittar verði fjárhagslegar upplýsingar um einstaklinga eða upplýsingar sem eðlilegt verður að telja að leynd ríki um. Hér er átt við almennar upplýsingar sem kunnáttumenn á sviði reikningsskila og uppgjörsfræða veita eigendum fyrirtækja um rekstur, umhverfi hans, áhættugreiningu og framtíðarhorfur. Þær almennu upplýsingar sem veittar eru í endurskoðunarbréfunum eru því ekki einkamál tiltekinna stjórnenda og fámenns hóps fyrrum eigenda bankanna heldur upplýsingar sem almenningur á rétt á að veittar verði þeim sem nú bera fjárhagslega ábyrgð á rekstri þrotabúanna. Á endanum reyndist það síðan vera almenningur sjálfur sem verður að axla þessa ábyrgð, því miður.

Minni hlutinn telur eðlilegt að gerð verði grein fyrir því á Alþingi hvort þessir utanaðkomandi eftirlitsaðilar sem störfuðu jafnt fyrir hluthafa, bankastjórnirnar og hið opinbera hafi með viðunandi hætti varað við þeirri hættu sem nú virðist hafa komið fram að var innbyggð í rekstur bankanna og almenningur bar vissa ábyrgð á þó svo að þegnarnir hafi almennt mátt telja að ábyrgðin takmarkaðist við hlutafé bankanna, Tryggingasjóð innstæðueigenda og Ábyrgðasjóð launa. Þeirri spurningu hefur ekki enn verið svarað hvers vegna ábyrgð þegnanna hafði ekki verið kynnt og við henni varað. Þá varpar minni hlutinn þeirri spurningu fram hvort ekki sé eðlilegt að þrotabú bankanna beri þennan kostnað þrátt fyrir ákvæði neyðarlaganna, þar sem þrotabúin hefðu hvort sem er borið ákveðinn hluta hans, og að skilanefndirnar flokki kostnaðinn milli ríkissjóðs og þrotabúanna með það í huga. Öðru máli kann að gegna með kostnað ríkissjóðs af sérstakri rannsókn sem nú hefur verið sótt um fjárheimildir fyrir.

Minni hlutinn vekur sérstaka athygli á tillögu um aukafjárveitingu til Flugstoða að fjárhæð 130 millj. kr. sem var lögð fram í þann mund sem frumvarpið var afgreitt frá fjárlaganefnd án fullnægjandi skýringa og án þess að tími hafi unnist til að ræða hana innan nefndarinnar. Minni hlutinn gagnrýnir þessi vinnubrögð, en þau eru í samræmi við það skipulags- og stefnuleysi sem einkennir fjárlagagerðina.

Ekki er hér verið að gagnrýna hvort þessi fjárveiting hafi verið mikilvæg eða ekki, við vitum að Flugstoðir bera ábyrgð á flugumferð og að flugvellir í landinu eru hæfir til flugumferðar en vinnubrögð af þessu tagi á síðustu metrum og síðustu mínútum fjárlagagerðarinnar hljóta að vera gagnrýnisverð. Einungis á að taka inn í fjáraukalögin eitthvað sem skyndilega kemur upp og ekki var fyrirsjáanlegt. Fjáraukalögin hafa verið í meðferð þingsins í nokkrar vikur og mánuði og upphæðir af þessum toga, og reyndar fleiri sem hér eru gerðar tillögur um, hljóta að hafa legið fyrr fyrir.

Minni hlutinn vísar til þess sem áður hefur komið fram af hans hálfu um að stofnanir í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu munu samkvæmt frumvarpinu hefja rekstur á næsta ári með halla, auk þess sem fjárheimildir þeirra eru almennt skornar niður í fjárlögum fyrir árið 2009.

Margar þessar stofnanir fara með umtalsverðan halla inn í næsta ár.

Minni hlutinn ítrekar gagnrýni sína á þetta ráðslag og óttast að óhjákvæmilegur sé mikill hallarekstur á næsta ári sem muni valda miklum erfiðleikum í rekstri þessara stofnana. Minni hlutinn vekur jafnframt athygli á því að ekki er gerð tillaga um eina einustu krónu til að koma til móts við rekstrarhalla Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar má öllum vera ljóst að það mun valda miklum vandræðum í starfsemi skólans á komandi árum. Minni hlutinn vísar allri ábyrgð á því máli á menntamálaráðuneytið og stjórnarmeirihlutann á Alþingi.

Ég vil víkja örfáum orðum frekar að málum landbúnaðarháskólanna. Ný lög voru samþykkt um Hólaskóla og Landbúnaðarháskóla Íslands og var samþykkt að sá síðarnefndi mundi sameinast Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi. Ljóst var að sú sameining mundi ein sér kosta verulegt fjármagn og skipulagsbreytingar. Auk þess var skólanum heimilt að bjóða upp á nýjar námsbrautir og auka umsvif sín á þeim vettvangi. Það sama var gert við Hólaskóla og honum veitt heimild með sérstökum lögum til að færa nám sitt á háskólastig og brautskrá nemendur.

Ljóst er og lá fyrir þegar ákvörðunin var tekin að þetta mundi eðlilega leiða til aukins kostnaðar í starfsemi skólans. Auk þess var mikil eftirspurn eftir starfsemi skólans og námsbrautum og í lögum þar sem Hólaskóli fékk heimild til að vera formlegur háskóli var einmitt gert ráð fyrir því í greinargerð og umfjöllun þess máls að hann mundi auka umsvif sín.

Ofan á þetta bættist að eitt fyrsta verk ríkisstjórnarinnar sem nú situr, ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, var að gangast fyrir miklum skipulagsbreytingum í Stjórnarráðinu um vistun ákveðinna málaflokka og heilla stofnana. Þá var lagt til að skólarnir, sem höfðu á annað hundrað ár eða allt frá stofnun verið með farsælum hætti í forsjá fyrst atvinnuvegaráðuneytisins og síðan landbúnaðarráðuneytisins, eftir að það var sérstaklega stofnað, með stjórnskipunarbreytingu var ákveðið af meiri hlutanum að færa skólana til menntamálaráðuneytisins.

Ég og reyndar fleiri þingmenn í stjórnarandstöðuflokkunum, flokkunum sem hafa kannski hvað mest tengsl við landsbyggðina, inn í landbúnaðarkerfið og til bænda, við vöruðum mjög við þessu. Við bentum á að búnaðarskólarnir hefðu um aldaskeið verið hluti af bændasamfélaginu og landbúnaðarsamfélaginu og staða þeirra sem slík mjög sérstæð, en í því fólst einmitt styrkur þeirra. Við vöruðum við að ef skólarnir færu undan landbúnaðarráðuneytinu yfir til menntamálaráðuneytisins mundi staða þeirra og sérstaða veikjast og þeir frekar metnir sem almennir skólar sem standa á venjulegum götuhornum og ekki yrði tekið tillit til hinnar gríðarlegu sérstöðu þeirra og þess samfélagslega, menningarlega og vísindalega hlutverks sem þeir gegndu í umhverfinu sem þeir eru sprottnir úr. Þessu var öllu varað við. Á síðasta ári voru þeir áfram sendir út. Fyrir ári síðan var ljóst að uppsafnaður halli var á skólunum en þá var hvorki tekið á þeim halla né fengu skólarnir nauðsynlegar fjárveitingar inn á fjárlög ársins 2008 sem þó var öllum ljóst að þyrfti að koma til og var hluti af lagasetningunni sem sett var um skólana. Þá var því borið við að þeir væru í endurskoðun og skoða þyrfti málin frekar en á þessu yrði tekið þegar á þessu ári og skólarnir fengu heimild til að fara áfram í verkefni sín með óbreyttu sniði á þessu ári. Þess vegna kom mjög á óvart í ljósi allra þessara yfirlýsinga að við fjárlagagerð nú var fjarri því að stofnanirnar fengju fjármagn inn á fjárlög 2009 eins og þær þurftu og eins og hafði verið gert ráð fyrir að þyrfti við þær tilfærslur sem urðu á þeim á milli ráðuneyta og einnig með tilliti til þeirra laga sem höfðu verið sett um þær fyrir skömmu. En það olli miklum vandræðum og vonbrigðum.

Ekki síður hitt að varðandi þann uppsafnaða halla sem hefur legið fyrir síðustu tvö til þrjú ár er rétt að geta þess að Hólaskóli fékk þar nokkuð viðunandi afgreiðslu á halla sínum við 2. umr. fjáraukalaga en Landbúnaðarháskóli Íslands ekkert. Ég ætla ekki að nefna upphæðina sem verið var að tala um en ljóst er að fjármagnið sem stofnunina vantar til að uppfylla þau loforð og væntingar sem henni voru gefnar fyrir ári síðan eru það háar að komi þær ekki inn og fái stofnunin þær ekki bættar inn í rekstur sinn mun hún standa frammi fyrir verulegum vandræðum. Sumir segja að ef það verði þannig sé það nánast tilskipun af hálfu stjórnvalda að skólinn sé óþarfur og honum eigi að loka eða skerða starfsemina svo verulega að hann verði ekki sami skóli á eftir.

Ég vil því beina afdráttarlaust spurningum til hæstv. menntamálaráðherra hvort raunin sé að Landbúnaðarháskóli Íslands eigi að fara inn í næsta ár með þennan uppsafnaða halla sem liggur fyrir — og ég veit að hæstv. ráðherra veit um hvaða tölur er að ræða — og einnig hvernig hæstv. ráðherra hugsar sér rekstrargrunn stofnananna á næsta ári þegar ljóst er að umtalsverðar fjárveitingar vantar inn í rekstur þeirra á árinu 2009 til að þær geti starfað með óbreyttum og eðlilegum hætti.

Jafnframt vil ég beina spurningum til hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sem veit vel um þá gagnrýni sem atvinnuvegurinn, Bændasamtökin og aðrir þeir sem tengjast stofnununum nánast — hann veit vel af gagnrýni og tortryggni í garð þeirrar ákvörðunar að flytja skólana frá landbúnaðarráðuneytinu til menntamálaráðuneytisins. Þar sem ég lít enn svo á að landbúnaðarskólarnir séu áfram hluti af félagslegu, vísindalegu og menntalegu umhverfi landbúnaðarins og þess vegna faglega á ábyrgð hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að þessi vinnubrögð og framkoma gagnvart skólunum sé ásættanleg og hvort þetta sé eitthvað sem hæstv. ráðherra styðji. Ég vil líka heyra röksemdir fyrir því að verið er að þreyta stofnanirnar með þessum hætti og að hann svari hreint út hvort verið sé að óbreyttu að segja Landbúnaðarháskóla Íslands að hann eigi að skera niður og skreppa svo saman að hann verði varla starfhæfur með sama hætti áfram. Ég óska eftir að hæstv. ráðherra svari þessu alveg skýrt og skorinort.

Svo ég víki aftur í nefndarálitið þá vísar minni hlutinn til nefndarálitsins sem lagt var fram við 2. umr. um frumvarpið. Í því nefndaráliti er ítarlega fjallað um frumvarpið og fram komnar breytingartillögur. Minni hlutinn getur ekki staðið að því að samþykkja fjáraukalög fyrir árið 2008 miðað við þær forsendur sem liggja til grundvallar enda vantar enn mikilvægar forsendur og upplýsingar til að hægt sé að meta stöðuna í heild. Er nú komið fram um jól og þessar upplýsingar liggja enn ekki fyrir. Þess vegna leggur minni hlutinn áherslu á og lýsir því yfir að ef fjáraukalögin verða afgreidd með þeim hætti sem hér liggur fyrir verði þau algerlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi.

Ég vil einnig vekja athygli á því að við hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd rituðum ríkisendurskoðanda bréf, dagsett 19. desember, þar sem við óskum eftir að ríkisendurskoðandi fari bæði yfir frumvarp til fjárlaga og frumvarp til fjáraukalaga ársins 2009 og hugi sérstaklega að öllum þeim þáttum sem tengjast falli bankakerfisins og skuldbindingum ríkissjóðs þar að lútandi. Sérstaklega er bent á vinnuferlið við fjárlagagerðina og fjáraukalagagerðina við þær óvenjulegu aðstæður sem ríkja í þjóðfélaginu. Þá var þess óskað að ríkisendurskoðandi liti sérstaklega á þær skuldbindingar sem ríkissjóður gengst undir og möguleika ríkissjóðs til að standa undir þeim til framtíðar. Óskað er eftir athugasemdum og ábendingum við fjárlagaferlið eftir því sem ríkisendurskoðanda þykir ástæða til.

Herra forseti. Eins og hér hefur verið rakið ítarlega bæði við 2. umr. og í nefndaráliti minni hluta við 3. umr. eru svo gríðarlegar skuldbindingar, lána- og vaxtagreiðslur að falla á ríkissjóð eða geta gert sem ekki er gerð grein fyrir í frumvarpinu þannig að margar ástæður eru fyrir því að minni hlutinn telur að þetta frumvarp sé algerlega ófullnægjandi, taki ekki á þeim aðstæðum sem fyrir hendi eru eða gefi um þær tæmandi upplýsingar og afgreiðsla þess og meðferð í þinginu er á ábyrgð meiri hluta ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.