136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[17:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það örlaði á ákveðnum misskilningi hjá hv. þingmanni sem ég verð mjög oft var við. Bankar eru ekki sparifjáreigendur, bankar eiga yfirleitt ekki sparifé. Bankar lána verðtryggt út peninga sem þeir fá sjálfir að láni með innlánum hjá gömlu fólki og hjá lífeyrissjóðunum með því að gefa út bankabréf.

Það sama gildir um Íbúðalánasjóð, hann fær verðtryggð lán frá lífeyrissjóðunum til að lána út aftur verðtryggt. Ef á að skerða verðtrygginguna öðrum megin verður að gera það hinum megin líka nema þá að geysimikið tap komi fram hjá ríkisbönkunum eða ríkisíbúðalánasjóðnum. Það þurfa skattgreiðendur þá að borga hvort eð er, kannski nákvæmlega sama fólk, þannig að menn þurfa að fara dálítið varlega í þetta og ekki tala svona léttúðlega.

Ég gat ekki lesið út úr þessari frétt frá Vinstri grænum annað en það að þeir ætli að setja þak á hækkun höfuðstóls verðtryggðra lána, það stendur hér. Það þýðir að — ekkert stóð um að þetta ætti að koma í bakið á fólki eftir t.d. fimm ár, (Gripið fram í: Lestu þingmálið sem er á bak við fréttina.) viðbótarhækkun á ekki að koma eftir einhver ár af því að þá sé staðan orðin betri. Nei, þetta á að vera varanlegt, (Gripið fram í: Þingmálið.) þannig skildi ég það.

Varðandi ríkisbankana gömlu, ég þarf ekki nema að minna hv. þingmann á víxileyðublöðin sem voru geymd hér niðri á þingi þar sem þingmenn og ráðherrar voru að redda lánum og víxlum og alls konar dóti. Ég vil ekki sjá þá tíma koma aftur og ætla að vona að menn beri gæfu til þess eftir að ríkið hefur eignast alla bankana þrjá að menn hindri svoleiðis fyrirbæri, biðstofur bankastjóranna fullar út úr dyrum þar sem menn voru að redda lánum og víxlum. Enginn fékk sjálfvirkt lán, það voru alltaf einhverjar reddingar. Ég vil ekki sjá svoleiðis aftur þar sem sumir fengu lán og aðrir ekki, nei takk.