143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

lengd þingfundar.

[16:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með öðrum þingmönnum sem hafa spurt hæstv. forseta út í ástæðuna fyrir kvöldfundi nú. Það eru engin brýn mál sem bíða og það eru engin efnisrök fyrir öðru en að ræða á dagvinnutíma þessa skýrslu með hæfilegri yfirvegun. Aðildarumsóknin er ekki heldur á neinum hlaupum frá ríkisstjórninni. Þó að þeim hafi tekist að beisla þingmenn sína og berja þá til hlýðni um stund virðist trúin á að það haldi ekki meiri en svo að menn virðast vilja berja aðildarumsóknartillöguna í gegn í miklum flýti.

Menn þora ekki í efnislega umræðu um málið. Menn þora ekki að láta skýrslu aðila vinnumarkaðarins verða til meðferðar á sama tíma og þá skýrslu sem hér er til umræðu.

Ég hlýt þess vegna að greiða atkvæði gegn lengd þingfundar í dag. Í boði hefur verið samkomulag um framhald þessa máls og er enn í boði um úrvinnslu þess. Við höfum ítrekað sagt að við séum tilbúin að vinna með ríkisstjórninni, að það sé hægt að vinna (Forseti hringir.) með faglegum forsendum og fá skýrslu aðila (Forseti hringir.) vinnumarkaðarins inn á borðið, (Forseti hringir.) en svona fruntagangur á ekkert gott skilið.