145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Í svari hæstv. forsætisráðherra við fyrirspurn hv. þm. Kristjáns Möllers í gær kom afdráttarlaust fram að það ætti ekki að hækka laun aldraðra og öryrkja til jafns við þær launahækkanir sem ákveðnar voru með SALEK-samkomulaginu og undirritað um daginn. Það þýðir að eina ferðina enn eiga þessir hópar að dragast aftur úr. Skelfilegt er eina orðið sem ég á yfir þetta, ekki síst í ljósi þess að ríkisstjórnin ætlar að stórum hluta að standa undir kostnaðarauka atvinnulífsins af þessum aðgerðum með því að lækka tryggingagjaldið.

Virðulegi forseti. Ég er alls ekki á móti lækkun tryggingagjaldsins. Eins og ég hef oft sagt hér áður þá gagnast sú lækkun best litlum og meðalstórum fyrirtækjum þannig að ég fagna því að tryggingagjald verði lækkað. Ég er hins vegar hugsi yfir því hve stóran hlut af launahækkunum ríkið tekur á sig. Við eigum að gera þær kröfur til atvinnulífsins að það borgi mannsæmandi laun.

Forseti. Vandi okkar felst í því að hér er vitlaust gefið. Þeir efnameiri og efnamestu leggja ekki það til sem þeir geta. Því þarf að breyta. Það þarf að gefa upp á nýtt. Það var rangt að lækka veiðigjöldin, það var rangt að afnema auðlegðarskattinn, það var rangt að afnema raforkuskattinn, svo eitthvað sé nefnt. Hér þarf að stokka allt upp, borga öllum mannsæmandi laun, bæði þeim sem eru á vinnumarkaði og hinum sem ekki geta verið þar annaðhvort sökum örorku eða aldurs.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna