148. löggjafarþing — 67. fundur,  4. júní 2018.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:47]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Kæra þjóð. Forseti og þingmenn. Okkar félagslegu og pólitísku hugmyndafræði skortir heildstæða sýn á framtíðarþróun samfélags okkar. Umhverfismengun, hnignandi líkamleg og andleg heilsa landsmanna, aukinn fíknivandi, fátækt og glæpir eru allt alvarleg vandamál sem kalla á lausnir sem hefðbundin stjórnmálakerfi virðist skorta getu til að kljást við. Það á ekki bara við um okkur á Íslandi, heldur fleiri víða í hinum vestræna heimi.

Samfélag okkar er að taka miklum breytingum en stjórnmálin standa í stað. Stöðnun stjórnmála og staðfest virðingarleysi fyrir framþróun þjóðfélagsins er aldrei af hinu góða. Í gegnum tíðina hefur slíkt oftast leitt til átaka og jafnvel blóðugra byltinga. Við lifum á tímum þar sem tækniframfarir gera einstaklingum kleift að taka beinan þátt í stjórnmálum á áður óþekktan máta. Stjórnmálakerfinu ber að bregðast við þessum aðstæðum með því að veita fólki raunverulegan aðgang að stefnumótun og ákvarðanatöku. Stjórnmálakerfi sem koma allri ákvarðanatöku í hendur fárra einstaklinga sem setja flokkshollustu í forgang til að tryggja eigin frama eru úr sér gengin og eiga enga samleið með nútímanum og þeim væntingum sem almenningur hefur til stjórnmála, enda hefur ákall eftir breytingum verið skýrt og hávært. Síendurteknar kosningar, mótmæli, undirskriftasafnanir, ný stjórnarskrá, metfjöldi framboða og hver hreyfingin á fætur annarri hefur sprottið upp til þess eins að vera hunsuð.

Ríkisstjórn hefur verið mynduð í þeim eina tilgangi að því er virðist til að viðhalda gömlu, úr sér gengnu kerfi. Allt tal um eflingu Alþingis, fagleg vinnubrögð og samvinnu er orðin tóm og líklega er það óumflýjanlegt, alla vega í núverandi fyrirkomulagi þar sem örfáir þingflokkar ráða ríkjum og þröngva sínum málum í gegn í krafti meiri hlutans. En er það ekki það sem stjórnmálin sem við stundum í dag snúast í raun og veru um; átök? Að stilla aðskildum þjóðfélagshópum upp hverjum gegn öðrum?

Hugmyndafræði flokkakerfisins byggir á varanlegum átökum á milli mismunandi eininga sem beita sér fyrir hagsmunum hluta þjóðfélagsins á kostnað annars hluta og til langs tíma á kostnað þjóðfélagsins alls. Þessi varanlegu átök á milli stjórnmálaflokka þjóna þeim eina tilgangi að festa í sessi gamaldags leiðtogablæti og valdefla auðræðið sem nýtir sér átökin til að beita sér fyrir eigin hagsmunum. Að deila og drottna er aðferðafræði sem skilað hefur fámennum hópi miklum árangri sem sölsað hefur undir sig óhófleg völd, fjármagn og auðlindir þjóðarinnar á kostnað okkar allra. Það er rangnefni að kalla þetta flokkakerfi lýðræði.

Raunverulegt lýðræði hefur enn ekki verið innleitt, en tækniframfarir bjóða upp á möguleikann á lýðræðisvæðingu samfélagsins, möguleikann á þátttökulýðræði, eða það sem við Píratar viljum kalla beint lýðræði.

En lýðræðisbyltingin snýst ekki einungis um þau verkfæri sem tæknibyltingar samtímans færa okkur í hendur. Hún felur í sér heildstæða endurskoðun á samfélaginu öllu og þeim undirliggjandi kreddum sem móta kerfi okkar. Það er framsækið verkefni sem krefst þess að við tökum upp raunverulegt samráð sem felur í sér að allir komi að borðinu til að hafa áhrif en ekki bara sem fjarvistarsönnun fyrir staðnað kerfi. Samráð sem er ekki sýndarveruleiki heldur markmið að bættu samfélagi og lýðræði sem virkar. Því að það sem við stundum hér og köllum lýðræði virkar ekki.

Við skulum ekki vera hrædd við breytingar. Breytingar eru óhjákvæmilegar og nauðsynlegar fyrir framþróun samfélagsins. Verum ekki hrædd við nýjar hugmyndir og nýja nálgun. Skilningur okkar á heiminum er í stanslausri þróun og hver kynslóð kemur með nýja sýn, nýjar væntingar.

Kæra þjóð. Ræktum lýðræðið saman og verum róttæk og hugrökk, því að eins og Barbara Wootton sagði: „Öll þróun dregur sköpunarkraft sinn frá meisturum hins ómögulega en ekki þrælum hins mögulega.“