149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Í dag eru rúmir 38 sólarhringar þar til Bretar ganga úr Evrópusambandinu. Óhætt er að segja að bresk stjórnmál leiki á reiðiskjálfi þessa dagana og ekkert útlit er fyrir að samningar takist um útgönguna og því æ líklegra að Bretar gangi úr Evrópusambandinu án samnings. Deilur eru harðar innan breska Íhaldsflokksins en ekki síður Verkamannaflokksins. Þau tíðindi urðu í gær að sjö þingmenn gengu úr þeim flokki og boða stofnun nýs stjórnmálaflokks og gefa í skyn að fleiri þingmenn, bæði úr Verkamannaflokknum og Íhaldsflokknum, muni fylgja í kjölfarið.

Fyrir okkur sem fylgjumst með úr fjarlægð er rík ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessari framvindu allri. Líkur á því að Ísland verði verr sett eftir útgönguna en fyrir aukast dag frá degi. Allt tal um mikil tækifæri fyrir okkur í samskiptum okkar við Breta verður æ hjákátlegra en um leið alvarlegra.

Þann 16. október á síðasta ári lagði ég þrjár spurningar fyrir hæstv. utanríkisráðherra með skriflegri fyrirspurn. Þeim hefur enn ekki verið svarað. Sex sinnum hefur verið óskað eftir fresti til að svara, síðast í gær. Spurningarnar snúast um réttindi Íslendinga í Bretlandi eftir Brexit. Það er ljóst að þau réttindi verða verri fyrir þá sem kjósa að sækja störf og nám eftir Brexit ef marka má stefnumörkun breskra stjórnvalda. Það er ef til vill þess vegna sem hæstv. utanríkisráðherra dregur svör sín. Hann á ef til vill erfitt með að sýna svart á hvítu að réttindi okkar Íslendinga í Bretlandi verða verri en þau eru í dag. Þar dregur úr tækifærunum, réttindi sem við njótum í dag hverfa við Brexit. Stjórnvöld hafa vissulega í samfloti við Norðmenn og Liechtenstein tryggt að nokkru leyti réttindi þeirra sem þegar eru fyrir í Bretlandi en alls ekki hinna. (Forseti hringir.) Hæstv. utanríkisráðherra ætti að sjá sóma sinn í að svara fyrirspurn minni sem er fimm mánaða gömul um þessar mundir.