149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég geri enn að umtalsefni málefni innflytjenda, flóttafólks, farenda, nýrra Íslendinga eða hvaða nafn við viljum gefa þeim stóra hópi fólks sem til Íslands leitar eftir búsetu um lengri eða skemmri tíma. Langflestir flytja hingað af fúsum og frjálsum vilja, margir úr mjög erfiðum aðstæðum. Það eru um 250 milljónir manna á faraldsfæti í heiminum, einstaklingar sem eru að leita sér að tryggu viðurværi og öruggari framtíð fyrir sig og börn sín. Hvati þessa getur verið af ýmsum toga, efnahagslegur, veðurfarslegur eða að óöld ríki í nærsamfélögunum. Mörg Vesturlanda geta ekki þvegið hendur sínar af þeirri ábyrgð sem þau bera af slæmu ástandi víða í heimalöndum farandfólks og því ber okkur að sýna skilning og umburðarlyndi og leggjast á árarnar með uppbyggilegum hætti.

Gerum við það? Nei, við sláum úr og í og raddir sem ala á tortryggni og ótta gera sig gildandi. Eigum við markvissa stefnu um það hvernig við tökum á móti aðkomufólki sem vill setjast hér að? Nei, það er allt í skötulíki, hvort sem um er að ræða börn, nemendur eða vinnandi fólk.

Hér búa nú yfir 44.000 einstaklingar með erlent ríkisfang frá um 170 þjóðlöndum. Fjögurra ára framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda er útrunnin. Fjármunir í áætlunina liggja að mestu ónotaðir í skúffu ráðherra. Fjölmenningarsetur býr við viðvarandi fjársvelti og megnar ekki, þrátt fyrir góðan ásetning, þekkingu og reynslu, að sinna verkefnum sínum eins og þarf. Og nú er það nýjasta nýtt, þingsályktunartillaga um að stofna þjónustuver fyrir innflytjendur hér á suðvesturhorninu. Engin stefna.

Herra forseti. Er ekki mál til komið að þingið taki á sig rögg, setji sér langtímamarkmið, vinni að umgjörð og stefnu í innflytjendamálum? Það viljum við í Samfylkingunni.