149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:22]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni, fyrir þessa umræðu um stjórnarskrána og hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur fyrir hennar innlegg. Það er mikilvægt að halda gangandi samtali um stjórnarskrána og jafnframt að fjalla um hana reglulega, ekki síst út frá því verkefni sem hæstv. ríkisstjórn lagði upp með. Í stjórnarsáttmála segir að hún vilji halda áfram með heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

Það verður alltaf nauðsynlegt, eins og þar er áréttað, að það verði í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og með aðferðum almenningssamráðs. Ég fagna þeirri áherslu sem lögð er á að nýta vinnu undangenginna missera, það er mikilvægt, og byggja á þeirri samfélagslegu umræðu sem hefur átt sér stað þó að auðvitað verði alltaf misjafnar skoðanir á því hversu langt eigi að ganga, bæði að efni og umfangi.

Á flokksþingi Framsóknarflokksins 2018 kom fram eindreginn vilji til að endurskoða stjórnarskrána með sérstakri áherslu á nýtt auðlindaákvæði. Framsóknarflokkurinn hefur lagt mikla áherslu á auðlindaákvæðið og nýtingu auðlinda og að ákvæði um auðlindir í þjóðareign verði bætt við núgildandi stjórnarskrá. Auk þess hefur flokkurinn lagt áherslu á skýrt ákvæði um beint lýðræði og umhverfisvernd. Formaður flokksins, hæstv. samgönguráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, þá forsætisráðherra, lagði fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá. Það var í ágúst 2016 og þær tillögur sneru að umhverfisvernd, þjóðareign á náttúruauðlindum og þjóðaratkvæðagreiðslum á grundvelli undirskrifta almennra kjósenda. Ekki gafst tími til að ná sátt um þær breytingar (Forseti hringir.) þó að ég trúi því að nokkur samstaða hafi verið um þær.