149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:30]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Þessi formannahópur er sannarlega fagnaðarefni og að í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar skuli sérstaklega tekið fram að stjórnarskrána skuli endurskoða í heild sinni. Ég veit að margir þeir sem voru vonsviknir, jafnvel reiðir, með niðurstöðu draga og tillagna stjórnlagaráðs eru mjög ánægðir með að þetta skuli vera komið á dagskrá og í ferli.

Ég vildi bara þakka félaga mínum, hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni, fyrir að taka málið á dagskrá hérna og ég hlakka sérstaklega til að sjá kröfur um þjóðaratkvæðagreiðslur í hendur þjóðarinnar og þá ekki síður frumkvæðisrétt þjóðarinnar til að leggja fram mál til Alþingis sem þjóðin telur að Alþingi sé ekki að sinna. Það er mjög mikilvægur réttur sem og jöfnun atkvæða.

Persónukjör var í tillögum stjórnlagaráðsins. Ég lagði fram frumvarp á þessu þingi um persónukjör, frumvarp sem Valgerður Bjarnadóttir lagði upphaflega fram. Hún gaf mér vinsamlegt leyfi til að halda því lifandi þannig að mér finnst ekkert að því að vera með plan B ef illa fer í þessari vinnu, hún strandi jafnvel á einhverju.

Auðlindaákvæðið get ég nefnt og fleira til sem er mjög mikilvægt að við náum að breyta sem fyrst. Ég tel að það sé samstaða um flest þessi grundvallarmál. (Forseti hringir.) Það eina sem ég hef áhyggjur af er hvernig við eigum að túlka mismunandi yfirlýsingar frá ríkisstjórnarflokkunum, einstökum þingmönnum sem hafa lýst sig andsnúna þessari heildarendurskoðun.