149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:33]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir innlegg sín í þessa umræðu. Það er ágætt að við tökum einn snúning á þessu, förum yfir hvernig málin standa. Það hefur svo sem legið fyrir nokkuð vel hvar vinnan er stödd. Ég verð að hrósa hæstv. forsætisráðherra fyrir að hafa verið óspör á upplýsingar um hvernig vinnunni er háttað og hvernig henni vindur fram. Það hafa verið gefin út minnisblöð um hvernig vinnunni háttar og hvað er að gerast, nú síðast í desember.

Eins og fram hefur komið, og hér hafa einhverjir hv. þingmenn komið inn á það, segir mjög skýrt í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar að fara skuli í heildarendurskoðun á stjórnarskránni í þverpólitísku samstarfi. Og það er akkúrat það sem verið er að gera. Formenn eða talsmenn þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi hafa hist tíu sinnum. Það er búið að skipta verkinu upp í áfanga. Á fyrra tímabilinu verða tekin fyrir viðfangsefni eins og þjóðareign á náttúruauðlindum, umhverfis- og náttúruvernd, þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði hluta kjósenda eða minni hluta þings, framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu, II. kafli stjórnarskrárinnar um forseta lýðveldisins og margt fleira, og kannski ekki síst ákvörðun um hvernig stjórnarskránni verði breytt.

Það er nokkuð sem oft gleymist í umræðunni að verður að fylgja með í pakkanum því að þær breytingar sem við komum á á stjórnarskránni fara náttúrlega eftir þeirri stjórnarskrá sem er í gildi þegar breytingarnar verða gerðar.

Síðan hefur verið sagt frá hvað verður tekið fyrir á öðru tímabilinu þannig að mér finnst vinnan vera á mjög góðu róli. Ég hef engar áhyggjur af einstaka yfirlýsingum af því að við förum eftir stjórnarsáttmálanum og hann er skýr.