149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þjóðin hefur sjálf ákveðið að gefa sjálfri sér nýja stjórnarskrá. Hún mætti á þjóðfundinn 2010 og lagði til breytingar á stjórnarskránni. Hún mætti sama ár í kosningu stjórnlagaþings og kaus sína fulltrúa. Þjóðin mætti síðan 2012 og greiddi atkvæði um frumvarpið sem kom frá stjórnlagaráði, um að hún vildi grundvalla nýja stjórnarskrá á frumvarpi stjórnlagaráðs. Þjóðin er búin að ákveða að hún ætli að gefa sjálfri sér nýja stjórnarskrá.

Ég vitna í ræðu Vigdísar Finnbogadóttur, ástsæls fyrrverandi forseta Íslands, sem hún flutti fyrir tveimur árum, með leyfi forseta:

„Árið 2008 steig Alþingi verulega merkilegt skref sem átti að verða til þess að draumurinn um nýja stjórnarskrá rættist loksins. Þá hófst víðfeðmasta og lýðræðislegasta starf að stjórnarskrárritun sem sagan kann frá að greina …“

Píratar hafa lagt fram frumvarp sem tekur alla þá vinnu á grundvelli stjórnlagaráðs sem átti sér stað hérna innan Alþingis og búið til eitt frumvarp úr því svo það er tilbúið fyrir næstu þingkosningar eftir tvö ár ef þörf er á því og ef Píratar komast í ríkisstjórn. Það er það sem við munum gera. Jafnframt sjáum við tækifæri í því sem hæstv. forsætisráðherra er að gera og sér í lagi að ætla að virkja nýja leið til almenningssamráðs sem rökræðukannanir eru, að fá landsmenn að borðinu til að rökræða um sjónarmið sem stjórnmálaflokkarnir koma sér ekki saman um, fá þjóðina inn í þá rökræðu, að þjóðin segi: Þetta er það sem við viljum. Þetta var gert á Írlandi nýlega um erfið stjórnarskrármálefni og virkaði vel. Það er búið að gera þetta hundruðum sinnum um allan heim og við erum með prófessor í lögum við Harvard og prófessor í stjórnmálafræði við Stanford sem hafa gert þetta víða um heim og eru tilbúnir að aðstoða okkur ókeypis við það. Það eru tækifæri þarna.

Ég óska hæstv. forsætisráðherra alls hins besta í þeirri vinnu sem hún er í við heildarendurskoðun og þakka henni fyrir að setja það orð þarna inn. (Forseti hringir.) Ég þakka henni fyrir að setja af stað ferli sem eru tækifæri í og ég mun áfram styðja hana í því. (Forseti hringir.) Jafnframt bendi ég á að frumvarp Pírata er tilbúið þannig að þið hin sem viljið ekki breytingar og viljið ekki heildarendurskoðunina, styðjið þá Katrínu Jakobsdóttur í þessu.