149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu sem vissulega nálguðust viðfangsefnin út frá mjög ólíkum sjónarhornum. Einn hv. þingmaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, spurði um tilganginn með þessu jarðlífi og tilganginn með þessari stjórnarskrárvinnu. Það er einmitt að ná sem breiðastri samstöðu um breytingar á stjórnarskrá sem munu standa af sér pólitíska vinda og munu standa til lengri tíma. Hlutverk okkar sem tökum þátt í þessari vinnu er annars vegar að standa fyrir okkar sýn, sýn okkar flokka, okkar fólks og stjórnarskrárbreytinga, en líka að hefja okkur aðeins yfir það og reyna að horfa vítt yfir sviðið og nálgast það viðfangsefni að hér hefur verið kallað eftir stjórnarskrárbreytingum mörg undanfarin ár, meira en undanfarinn áratug, og það er mikilvægt að stjórnmálin sýni að þau séu þess megnug að ná fram góðum breytingum á stjórnarskrá.

Uppleggið sem við lögðum til grundvallar þessari vinnu miðaði að því að við ættum öll aðgang að breytingunum en að við myndum líka leita til almennings. Eins og ég sagði í minni fyrri ræðu lít ég á það eitt og sér sem ákveðið tækifæri fyrir íslensk stjórnvöld og íslensk stjórnmál ef vel tekst til með slíkar tilraunir í almenningssamráði. Stóra markmið mitt er að við, sem Alþingi, náum að sammælast, vonandi öll, a.m.k. sem flest, um breytingar á stjórnarskrá í lok þessa kjörtímabils sem þar af leiðandi verða að líkindum staðfestar á næsta kjörtímabili. Mín von er líka sú að þá sé hægt að halda áfram vinnunni. Með gleði vildi ég að hún gengi hraðar en ég hef sjálf lagt upp í minni áætlun. Við verðum bara að sjá hvernig það gefst. Ég vil meina að við eigum öll færi til þess, ef við treystum (Forseti hringir.) okkur til þess, að horfa á heildarhagsmuni í þessu máli, ekki eingöngu okkar dýpstu sannfæringu, þó að hún ráði auðvitað ráði för, heldur að við horfum líka á heildarhagsmuni, hvaða breytingum við getum náð fram í sem breiðastri samstöðu.