149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

539. mál
[16:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að við förum aftur yfir þetta. Ég veit ekki hvort það hafi skipt sköpum, þ.e. framgangan, en ég held að það sé ein ástæðan fyrir því að sameinast var um okkur. Ég held að aðalástæðan hafi verið framganga okkar almennt í mannréttindaráðinu, ég geri ráð fyrir því.

En ég var að vísa til þess að fram til þessa, alveg sama hvaða ríkisstjórnir hafa verið, alveg sama hvernig þær hafa verið samsettar og af hvaða flokkum, þá er það í samræmi við stefnu EFTA-ríkjanna, sem eru Noregur, Sviss og Liechtenstein, að menn hafa gert fríverslunarsamninga jafnvel þó að ástandið í mannréttindamálum í viðkomandi ríkjum hafi ekki verið eins og við vildum sjá þau. Ef við ætlum að breyta frá þeirri stefnu þá hljótum við að þurfa að endurskoða aðild okkar að EFTA. Eitt er víst að við getum ekki gengið í ESB. Einhver myndi segja að við þyrftum þá að fara líka að taka harðar á málum á vettvangi EES, málum sem okkur mislíkar hjá vinaþjóðum okkar í Evrópusambandinu. Því að ef við erum sammála um að við gerum eins og við getum til að vera sjálfum okkur samkvæm þá getum við ekki sagt: Við ætlum ekki að gera fríverslunarsamning við þetta ríki út af mannréttindamálum en ætlum að halda áfram með fríverslunarsamninginn sem við erum með nú þegar í ríkjum þar sem jafnvel er gengið miklu lengra og verr fram í að brjóta mannréttindi. Það bara segir sig sjálft.

Það er það sem ég er að vísa hér til. Því miður er það þannig að lönd heims eru ekki eins, og stjórnarfar er eins og það er, en ekki eins og við viljum hafa það. Ég er að segja að það getur enginn haldið því fram að við höfum ekki verið að nýta rödd Íslands á alþjóðavettvangi til að berjast fyrir mannréttindum. En á sama hátt höfum við, ásamt öðrum EFTA-ríkjum (Forseti hringir.) og Evrópuríkjum, verið með þessa stefnu þegar kemur að fríverslunarmálum.