149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[16:59]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka þingmanni fyrir þessar spurningar. Tillagan gerir ráð fyrir því, svo það sé upplýst, að ráðherra flytji um þetta skýrslu nú í vor. Ef þessi tillaga nær fram að ganga er gert ráð fyrir því að fjármálaráðherra flytji um málið skýrslu á vorþingi þannig að það kemur fljótt í ljós hver kostnaður yrði, ef einhver, af því að kaupa þetta hús. Það gæti hugsanlega nýst Alþingi líka. Þá getum við sparað byggingu nýbyggingar sem áætlað er að verði byggð vestan við þinghúsið og notast frekar við þessa byggingu þannig að við gætum jafnvel sparað þegar upp væri staðið.

Varðandi orð hennar um skuggamyndun leyfi ég mér að segja að þarna voru bílastæði áður og ef það á að byggja þar sem bílastæðin voru þá myndast auðvitað skuggi af því húsi. Þetta er í vesturátt og kvöldsólin er nú þar yfirleitt. Það hlýtur að varpa einhverjum skugga á Austurvöll. Ég ætla ekki að fara í hnútukast um það hversu mikill skugginn verður en hann verður eflaust einhver af því húsi sem rís þar sem áður voru bílastæði. Þau hafa ekki haft í för með sér mikla skuggamyndun.

Varðandi áhrif umferðar þá er reiknað með að inngangur þessa hótels, eins og fallist var á að breyta honum, komi nær Alþingishúsinu en áður var. Ég sé alveg fyrir mér og allir Reykvíkingar sjá fyrir sér þann fjölda ferðamanna sem hér er í grennd við Alþingishúsið, jafnvel bara beint fram fyrir framan það, og rúlli sínum töskum fram hjá. Ég sé það alveg fyrir mér.