149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

réttur barna sem aðstandendur.

255. mál
[18:31]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Takk fyrir þessi svör. Ég held, eins og er augljóst af flutningsmönnum þessa frumvarps, að það sé þverpólitísk sátt um nauðsyn og gæði þessa máls. En varðandi skyldur starfsmanna, hvort sem er á heilbrigðissviði, skólasviði eða einhverju öðru, þá er ekki nóg að setja þessar skyldur á herðar starfsmanna. Eins og ég sagði er skylda nú þegar á starfsmönnum leikskóla að tilkynna til barnaverndar ef grunur leikur á að einhver aðstoð sé nauðsynleg. Ég veit að það er tregða til að sinna þessari skyldu og það er kannski það sem maður hefur áhyggjur af. Við vitum að þetta eru einmitt stéttirnar sem eru kannski undir hvað mestu álagi, þ.e. heilbrigðisstarfsmenn, starfsmenn leikskóla og starfsmenn grunnskóla. Það er tregða í kerfinu við að taka á sig of mikil verkefni. Því miður er það þannig, ég þekki sérstaklega til í leikskólum, að þegar upp kemur þessi grunur er barnið ekki látið njóta vafans heldur minna vinnuálag. Þetta er mjög miður.

En ég fagna því að þessi vinna varðandi upplýsingaflæði á milli stofnana, hvað megi fara á milli og hvað ekki, fari af stað. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt, (Forseti hringir.) en ég held að það að leggja skyldu á starfsmenn sé ekki nóg.