149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

réttur barna sem aðstandendur.

255. mál
[18:33]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er viss tregða og það verður bara að segjast eins og er að barnaverndarkerfið er oft málað upp sem einhver grýla og sé tilkynning gefin til þess sé maður að gera einhverjum óleik. Það er svolítið þannig sem fólk upplifir kerfið allt of oft, en svo upplifa þeir sem hafa fengið að njóta þjónustu kerfisins að það sé allt öðruvísi í flestum tilfellum. Í flestum tilfellum er það þannig.

Ég tek undir að það er mikilvægt að vinna áfram að þessu og ætla ekki að gera lítið úr því. En ég vil meina að það mál sem við erum með hér eigi ekki að mæta sömu tregðu og feimni þar sem þarna er um skyldu að ræða til að tryggja þjónustu við barnið vegna einhvers óumflýjanlegs atburðar sem er andlát eða langvinn eða alvarleg veikindi, og til að aðstoða barnið við að fara inn í aðstæðurnar. Tilkynningin þarf að koma frá heilbrigðisyfirvöldum til skólayfirvalda og sýslumanns eftir atvikum til þess að umhverfið sem barnið fer inn í eftir andlátið sé betur meðvitað um stöðu barnsins, til að aðstoða það í sínum aðstæðum, t.d. skólanum, í gegnum það áfall sem það varð fyrir við að missa foreldri sitt. Þess vegna held ég að þetta eigi að vera svolítill hvati fyrir fólk að hafa þessa skyldu á sér að tilkynna þetta til að tryggja velferð barnsins betur og líðan þess.