151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

efnahagsmál.

[13:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við ræddum það ítrekað og lögðum það fram strax í upphafi að við þyrftum að taka stór skref strax. Við erum að sjá það núna að það hefði betur verið gert, að taka stærri skref. Það veldur mér hins vegar áhyggjum að forsætisráðherra skuli ekki taka alvarlegar þau varúðarmerki sem við sjáum nú teiknast upp. Það er ekki eingöngu vegna krónunnar, við vitum að það er gríðarleg gengisáhætta núna sem fylgir erlendum lántökum ríkissjóðs, þeirri kúvendingu hjá ríkisstjórninni og Seðlabanka sem orðið hefur. Það er gríðarleg gengisáhætta þar, áhætta fyrir velferðarkerfið og fleira.

Ég hef verulegar áhyggjur af því að fólk ætli að ganga um þetta af ákveðinni léttúð, þ.e. hvort veita eigi Seðlabankanum mjög víðtækar heimildir til að setja á gengishöft. Ég hefði einmitt haldið að við ættum að hafa mjög grundvallaða, ítarlega umræðu hér í þingsal um slíkar víðtækar valdheimildir, því að ef við sjáum fram á höft aftur, eins og mér finnst ríkisstjórnin í rauninni vera að boða, hvaða áhrif hefur það á samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs? Ég vil fá að vita hvaða greiningar (Forseti hringir.) hafa átt sér stað hjá ríkisstjórninni ef menn ætla að fara aftur af stað með einhverja haftapólitík, (Forseti hringir.) eins og verið er að boða í frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem liggur núna fyrir.