151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

strandsiglingar.

[13:17]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Aðalatriðið er kannski þetta: Við heyrum öll að hægt sé að hafa miklu meiri strandsiglingar og að það myndi leysa vandann á vegunum. Það eru ekki réttar upplýsingar. Það er nær því að vera þannig að allur sá flutningur sem getur farið með skipum fer með skipum í dag af því að það er hagkvæmara og skynsamlegra. Flutningar á vegunum eru þar fyrst og fremst vegna tímans, vegna þess að menn þurfa að fá vörur hratt til sín eða hratt frá sér. Það er hins vegar engin mótsögn fólgin í því. Ef við horfum 20 til 40 ár fram í tímann, jafnvel bara tíu, og það þurfum við að gera þegar kemur að flutningum og samgönguskipulagi, þurfum við að velta fyrir okkur hvað sé skynsamlegast að byggja upp. Stóra flugvelli, stórar hafnir, mikla og breiða vegi eða er það samspilið á milli þessara þriggja þátta? Það er það sem ég er að hefja vinnu við núna, til skoðunar inn í framtíðina. Þar kemur inn ný tækni sem getur leyst ákveðinn vanda hvað varðar það sem við getum ekki flutt með skipum í dag en gæti gerst í framtíðinni.