151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

bólusetningarvottorð á landamærum.

[13:28]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Fyrst til að skýra það betur þá var ákvörðunin sem var tekin í ríkisstjórn í dag sú að samþykkja bóluefnavottorð eða mótefnamælingar sem eru samþykktar af Evrópsku lyfjastofnuninni og það á þá við um öll lönd utan Schengen. Við tókum sérstaklega dæmi um þau lönd sem eiga flestu ferðamennina sem koma hingað til lands, þ.e. Bretland og Bandaríkin. Þessar breytingar hafa kannski mestu áhrifin gagnvart þeim. En það er alveg ljóst að Kanada og öll önnur lönd munu falla þarna undir. Þetta eru þau bóluefni sem samþykkt hafa verið af Lyfjastofnun Evrópu og þeir ferðamenn munu þá verða undanskildir öllum sóttvarnaráðstöfunum á landamærunum eins og þeir eru sem koma hingað frá löndum innan Evrópu með sams konar vottorð.

Hv. þingmaður spyr um muninn á þessu og fyrri beiðni. Munurinn er auðvitað gríðarlega mikill af því að þá voru ekki komin bóluefni og þessar ráðstafanir Schengen voru settar á til þess að vernda Schengen-svæðið gegn smitum utan svæðisins. Hversu vel sem fólki kann að hafa fundist það virka þá voru þessar ráðstafanir settar sérstaklega á vegna þess. Ég tel það því ekki málefnaleg rök fyrir því að ganga það langt að fólk sem er með bóluefni við þeim sjúkdómi sem verið er að verja ytri landamæri Schengen gegn hafi ekki kost á að koma hingað til lands.

Með því að heilbrigðisráðherra breyti reglugerð hjá sér og viðurkenni þessi vottorð, sem eru sams konar og um sömu bóluefni að ræða og eru notuð í Evrópu, sem og með því að breyta því að bann við tilefnislausum ferðum frá löndum utan Schengen muni ekki gilda um þá sem eru með mótefni eða sams konar bólusetningarvottorð utan Schengen, erum við að stíga mjög mikilvægt skref og stjórnvöld að hvetja fólk til að þiggja bóluefni með því að segja að við tökum mark á þeim og þeim vottorðum.