151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

bólusetningarvottorð á landamærum.

[13:30]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar svar. Ég ætla einnig að ítreka þetta varðandi Evrópu: Eru þessir ferðamenn frjálsir för sinni til Evrópu þrátt fyrir afstöðu ráðherraráðs Evrópuráðsins? Er það rétt skilið hjá mér að þeir komist inn á Schengen um leið og þeir koma hingað eða er það í andstöðu við álit ráðherraráðsins? Hefur eitthvað breyst í því sambandi? Einnig vil ég spyrja um bóluefnin. Verður það þannig, hæstv. ráðherra, að þeim sem koma hugsanlega frá Kanada eða Kína með vottorð um að þeir hafi þegið annað bóluefni sem ekki er samþykkt í Evrópu, eins og t.d. Sputnik V sem enn hefur ekki fengið samþykkt Lyfjastofnunar Evrópu, verði meinað að koma hér inn? Er það rétt skilið? Verður ferðamönnum sem hafa fengið bóluefni sem ekki hafa fengist samþykkt snúið við á landamærunum?