151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

bólusetningarvottorð á landamærum.

[13:31]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Önnur lönd hafa gert sérstakar undanþágur, eins og Kýpur gagnvart Ísraelum og fleiri. Flest lönd, þar á meðal öll Norðurlöndin, eru núna með landamæraeftirlit á innri landamærum sínum. Það er auðvitað þeirra að ákveða hvað þau gera við þá ferðamenn sem til þeirra leita frá löndum utan Schengen og eru bólusettir. Við erum sem þjóð að taka þá ákvörðun að hingað séu velkomnir aðilar með bólusetningarvottorð alls staðar að, með þeim bóluefnum sem viðurkennd eru af Lyfjastofnun Evrópu. Enn sem komið er munum við ekki samþykkja bólusetningarvottorð með öðrum bóluefnum. En maður býst við og bindur vonir við að fleiri bóluefni verði fljótlega samþykkt af Lyfjastofnun Evrópu. Ráðherraráðið var ekki sérstaklega upplýst um þessa ákvörðun enda tel ég hana ívilnandi fyrir þá aðila sem eru nú þegar bólusettir eða með mótefni og það stangist því ekki á við markmiðið með reglugerðinni sem snýst um bann við tilhæfulausum ferðum utan Schengen. Og ég tel þetta mikilvægt fyrir íslenskt samfélag, efnahagslíf og atvinnulíf.