151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

atvinnuleysi og staða atvinnuleitenda.

[14:23]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Baráttan gegn atvinnuleysinu er eitthvert stærsta verkefni samfélagsins og þar eru margir kallaðir til ábyrgðar. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir ræddi það sem ákveðið hefur verið sem sérstakar bráðaaðgerðir eða hefur verið gert undanfarið en ég ætla aðeins að horfa meira til framtíðar og minnast þar á eitt lykilatriði til að byrja með sem er menntunarátak, menntun sérstaklega. Ég nefni þar sem dæmi það sem Virk hefur verið að skipuleggja núna undanfarið og það sem verið er að skipuleggja gegnum byggðaáætlun, sóknaráætlun, svæðisáætlanir. Ég tek dæmi af Heklunni á Suðurnesjum og starfs á vegum Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi þar sem er samstarf haghafa og stofnana og félaga og sveitarfélagsins eða sveitarfélaga og ráðuneyta. Ég minni þar með um leið á nám í íslensku fyrir innflytjendur sem skiptir gríðarlegu máli.

Fleiri langtímaverkefni blasa við því að það er langtímaverkefni að ná meðalatvinnuleysi, sem er 11–12%, niður. Ég ætla að nefna fleiri störf án staðsetningar, halda samgönguáætluninni, þessum tugmilljarða fjárfestingum sem eiga að skapa störf m.a., ljúka ljósleiðaravæðingu innan þéttbýliskjarna á landsbyggðinni. Ég ætla að leggja mikla áherslu á rannsóknir, þróun og nýsköpun sem lýtur að því að fjölga atvinnugreinum, sem skiptir okkur öllu máli. Þar útheimta allar aðgerðir verulega fjárfestingu ríkisins í gegnum styrkjakerfi og öfluga skóla, námslánakerfið o.fl. Ég ætla að tala um fjárfestingar sveitarfélaga almennt séð og sameiningu þeirra. — En fyrirtækin, að bönkunum meðtöldum: Hvað þurfa þau að gera? Jú, þau þurfa að stilla hagnaðinum í hóf, fjárfesta fyrir stóran hluta af honum, bæta kjör launafólks, hægja á hagræðingu og halda störfum og, síðast en ekki síst, að stunda samfélagslega ábyrgð í hvívetna. Á það hefur skort á Íslandi og það lengi.