151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

atvinnuleysi og staða atvinnuleitenda.

[14:25]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að setja þessa mikilvægu umræðu á dagskrá. Við búum við alvarlega atvinnuleysiskreppu og höfum gert það í tæpt ár núna. Þetta er kreppa sem slær fólk af mismiklum þunga. Fólkið sem verður verst fyrir henni missir ekki bara tekjur ef það ílengist utan atvinnumarkaðar, það getur misst lífsviðurværi sitt og lent í langvarandi efnahagslegum og félagslegum vanda sem fylgir atvinnuleysi. Það vitum við.

Við í Viðreisn hvöttum ríkisstjórnina til að taka stór skref strax og Covid-fárið kom upp fyrir fyrir tæpu ári síðan, en ekki lítil skref seinna. Reyndar var farið að bera á atvinnuleysiskrísu fyrir rúmu ári. Í desember árið 2019 voru rúmlega 8.000 manns atvinnulausir og hafði fjöldinn tvöfaldast það ár. Strax þá bentum við á mikilvægi og nauðsyn þess að stjórnvöld brygðust við með aðgerðum til að örva hagkerfið og ýta undir atvinnusköpun á þeim stöðum sem verst væru settir. Fjöldinn utan vinnumarkaðar er, eins og við vitum öll, orðinn enn meiri og enn mikilvægara að bregðast við strax með hnitmiðuðum hætti. Aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar eykur á vandann. Handahófskenndar og seinvirkar aðgerðir bjarga ekki miklu, innihaldslitlar yfirlýsingar bjarga engu. Staðan er sú að þeir sem hafa verið atvinnulausir hér á landi í meira en sex mánuði eru orðnir tæplega 13.000 talsins. Það er allur íbúafjöldinn í býsna stóru, íslensku bæjarfélagi. Nú hefur ríkisstjórnin lagt fram tillögur sínar og um þær er það helst að segja að þær eru ansi sambærilegar tillögum stjórnarandstöðunnar frá því fyrir um ári síðan. Þess vegna langar mig að spyrja: Hvað hefur valdið þessum töfum? Hvernig svarar hæstv. ráðherra þeim fjölskyldum sem verst hafa orðið úti á því ári sem liðið er?