151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

atvinnuleysi og staða atvinnuleitenda.

[14:30]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum þátttökuna í þessari sérstöku umræðu. Hæstv. ríkisstjórn hefur gert eitt og annað til að mæta tekjufalli fyrirtækja en minna fer fyrir aðgerðum til að bregðast við tekjufalli heimila og þess fólks sem missti vinnuna hjá þessum sömu fyrirtækjum. Þar dregur hæstv. ríkisstjórn lappirnar. Ríkisstjórnin er svifasein. Dráttur á úrræðum fyrir fólk sem er án atvinnu, í atvinnukreppu, mun kalla á enn meiri kostnað til lengri tíma. Það sýna allar kannanir og greiningar á slæmum aukaverkunum langtímaatvinnuleysis. Samfylkingin lagði fram áætlun í byrjun október síðastliðinn um 7.000 ný störf. Þar kölluðum við m.a. eftir þeirri leið sem hæstv. félags- og barnamálaráðherra kynnti svo síðastliðinn föstudag, tæpu hálfu ári seinna. Sú aðgerð er mikilvæg en hún kemur seint og er til skamms tíma. Fólk sem hefur verið atvinnulaust lengst og klárað þessi tímabil fyrir 1. október 2020 er skilið eftir. Það verður að taka betur utan um fólkið sem misst hefur vinnuna og draga úr tekjufallinu sem það verður fyrir, draga úr ójafnaðaráhrifum kreppunnar og koma í veg fyrir aukna misskiptingu. Ef við tryggjum ekki afkomuöryggi fólks meðan það er á milli starfa mun fátækt og ójöfnuður aukast. Að verja afkomuöryggi þeirra sem eru án atvinnu stangast ekki á við það markmið að fjölga störfum heldur þvert á móti. Við þurfum kraftmiklar virkar vinnumarkaðsaðgerðir, lengra tímabil atvinnuleysisbóta, við þurfum námsúrræði, skynsamlega útfærða ráðningarstyrki (Forseti hringir.) og einnig tekjufallsstyrki til að mæta erfiðri stöðu fólks sem líður fyrir (Forseti hringir.) afleiðingar heimsfaraldurs.