151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

fullnusta refsinga.

569. mál
[15:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, með síðari breytingum. Með frumvarpinu eru lagðar til tímabundnar breytingar á ákvæðum laganna um samfélagsþjónustu og reynslulausn í því skyni að stytta boðunarlista til afplánunar í fangelsi. Boðunarlisti er listi yfir þá einstaklinga sem bíða fullnustu hjá Fangelsismálastofnun og hefur dómþolum á þeim lista fjölgað umtalsvert síðustu ár. Í lok síðasta árs voru 706 einstaklingar á listanum, samanborið við 300 einstaklinga árið 2010. Afleiðingarnar eru að meðalbiðtími eftir að afplánun hefjist hefur lengst og fyrningum óskilorðsbundinna dóma hefur fjölgað. Brýnt er að bregðast við því. Í mars í fyrra skipaði ég starfshóp um styttingu boðunarlista til afplánunar refsinga. Hópurinn skilaði skýrslu í lok júní þar sem settar voru fram nokkrar tillögur að aðgerðum, þar á meðal um nauðsynlegar breytingar á ákvæðum laga um fullnustu refsingar um samfélagsþjónustu og reynslulausn. Með þessu frumvarpi er því brugðist við tillögum starfshópsins.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ákvæði til bráðabirgða í lögin sem heimili Fangelsismálastofnun að fullnusta allt að 24 mánaða óskilorðsbundið fangelsi með samfélagsþjónustu, en samkvæmt núgildandi ákvæði er stofnuninni heimilt að fullnusta allt að 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi með samfélagsþjónustu. Jafnframt er lagt til að hið sama eigi við þegar um refsingu samkvæmt fleiri en einum dómi er að ræða og í þeim tilvikum þegar hluti fangelsisrefsingar er skilorðsbundinn. Með þessu verður því heimilt að afplána með samfélagsþjónustu þegar samanlögð refsing eða heildarrefsing er allt að 24 mánuðir í stað 12 mánaða í núgildandi lögum.

Í skýrslu starfshópsins um styttingu boðunarlista til afplánunar var lagt til að breyting þessi yrði gerð varanleg í ljósi þess hve góða raun samfélagsþjónusta hefur gefið hingað til, en ákveðið var að gera þessa heimild tímabundna að sinni. Á gildistíma ákvæðisins verður svo fylgst með því hvaða áhrif breytingarnar hafa, m.a. á ítrekunartíðni til að unnt sé að meta hvort æskilegt sé að gera slíkar breytingar til framtíðar. En komi til þess þarf enn fremur að taka til skoðunar hvort ákvörðun um samfélagsþjónustu skuli vera áfram stjórnvaldsákvörðun eða í höndum dómstóla.

Með frumvarpinu er einnig lögð til sú breyting að Fangelsismálstofnun verði tímabundið heimilt að veita föngum sem eru með styttri refsingu en 90 daga óskilorðsbundið fangelsi reynslulausn fimm dögum áður en reynslulausn hefði annars verið veitt og föngum með lengri refsingu en 90 daga óskilorðsbundið fangelsi reynslulausn tíu dögum áður en að reynslulausn kemur. Þetta er gert að norskri fyrirmynd en hér er um tímabundið úrræði að ræða á meðan unnið er að styttingu boðunarlistans.

Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru sem fyrr segir tímabundnar og er ætlað að stytta boðunarlista og fækka þannig að fyrningum refsinga og stytta bið dómþola eftir afplánun. Verði ekkert aðhafst má leiða að því líkur að fyrningum fjölgi enn frekar og er slíkt óásættanlegt með tilliti til varnaðaráhrifa refsinga. Fyrningar refsinga hafa neikvæð áhrif á varnaðaráhrif refsinga, bæði almenn og sérstök. Þá er einnig óviðunandi að fjöldi dómþola skuli hefja afplánun refsingar nokkrum árum eftir að dómur fellur, en vitað er að varnaðaráhrif mögulegrar fangelsisvistar verða minni þegar bið eftir afplánun tekur nokkur ár. Að auki getur lengri bið eftir afplánun verið dómþolum þungbær, þeir hafa jafnvel snúið alfarið af þeirri braut sem leiddi til refsiverðrar háttsemi, náð bata frá áfengis- og/eða vímuefnaneyslu, stofnað fjölskyldu og í sumum tilfellum lagt stund á nám eða vinnu. Þannig getur löng bið eftir afplánun haft gagnstæð áhrif en þau sem stefnt var að með þeirri betrunarstefnu sem stjórnvöld vilja leggja áherslu á.

Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að fjölga þurfi tímabundið um eitt ársverk hjá Fangelsismálastofnun og er sá kostnaður metinn árlega 11 millj. kr., en gert er ráð fyrir að kostnaðurinn rúmist innan útgjaldaramma málefnasviðsins. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin. Sem liður í undirbúningi þessa frumvarps var við samningu þess leitað til Fangelsismálastofnunar, það var birt á samráðsgátt stjórnvalda 29. janúar 2021 og almenningi gefinn kostur á að koma með athugasemdir og ábendingar. Umsögn barst frá Afstöðu, félagi fanga, sem var almennt jákvæð í garð frumvarpsins, einkum gagnvart rýmkun á samfélagsþjónustu.

Virðulegi forseti. Ég hef mikla trú á því að með því að breyta og bæta þann möguleika að fullnusta refsingu með aukinni samfélagsþjónustuna og því að ná niður boðunarlistum séum við að koma til móts við þann hóp sem bíður eftir afplánun refsinga sem getur verið refsing í sjálfu sér.

Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.