151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

þjóðkirkjan.

587. mál
[17:13]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Að vísu velti ég því fyrir mér hvort stjórnarskrárbundið ójafnrétti sé samt ekki ójafnrétti. Hér erum við í rauninni að tala um að ákveðnu trúfélagi er hyglað umfram önnur. Ég er ekki að segja að þjóðkirkjan eigi ekki tilvistarrétt, hún á það algjörlega, en ég gagnrýni einna helst að búið sé að ganga þetta langt. Það er búið að setja lög um æðstu stjórnendur tiltekinnar einkavæddrar eða sjálfstæðrar stofnunar, eins og hv. þingmaður segir. Af hverju má þessi stofnun ekki ákveða sín mál sjálf, um biskup og annað? Af hverju þurfum við lög um þjóðkirkju þó svo að í stjórnarskrá standi að við eigum að vernda hana? Ég held einmitt að betra væri ef við myndum minnka þetta fargan, minnka umsvif ríkisins þegar kemur að þjóðkirkjunni. Vissulega á að halda áfram að styrkja hana á meðan þetta er í stjórnarskránni en kannski ekki endilega að gera samning við þjóðkirkjuna, sem er ótímabundinn og hljóðar upp á greiðslu margra milljarða á hverju ári umfram það sem önnur trúfélög hafa aðgengi að. Slíkir samningar, kirkjujarðasamkomulagið og annað, eru í fyrsta lagi bara afleikur fyrir ríkissjóð að stunda svona lagað, en þetta er heldur ekki rétt leið. Þetta er ekki nógu heiðarleg leið til að segja: Við erum að styðja þessi samtök umfram önnur vegna þess að það stendur í stjórnarskrá. Það eru til betri og heiðarlegri leiðir til þess (Forseti hringir.) og ég held að við hljótum að geta fundið betri leiðir til þess en að setja fullt af lögum, fullt af takmörkunum og moka síðan peningum samkvæmt samkomulagi sem gengur ekki upp.